Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjölskylda var um borð í vélinni sem brotlenti

11.06.2019 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: Milla Ósk Magnúsdóttir
Fjölskylda var um borð í flugvélinni sem brotlenti við Múlakot í Fljótshlíð á Suðurlandi á sunnudag. Þrír fórust í slysinu, hjón og sonur þeirra. Þau voru úrskurðuð látin á vettvangi. Annar sonur hjónanna og tengdadóttir voru flutt alvarlega slösuð á slysadeild Landspítala. Líðan þeirra er stöðug. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, í samtali við fréttastofu.

Flug­vél­in sem hrapaði var af gerðinni Piper PA-23. Flugmaður hennar, sem er þaulvanur að sögn lögreglu, var að æfa snerti­lend­ing­ar á flug­vell­in­um í Múla­koti áður en slysið varð. Vitni að slysinu fengu sálrænan stuðning frá Rauða krossinum. 

Aðstæður á slysstað voru mjög erfiðar en eldur logaði í öðrum væng vélarinnar þegar viðbragðslið bar að. Slökkviliðsstjóri Rangárþings ytra sagði í samtali við fréttastofu í gær að slökkviliðsmenn væru ekki vanir því að fást við flugslys og því hafi tekið tíma að átta sig á hvernig best væri að haga björgunarstörfum.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn en tildrög slyssins eru enn til skoðunar hjá rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurlandi. Sú rannsókn getur tekið töluverðan tíma að sögn lögreglu.