Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjölmörg alvarleg umferðarslys á fyrstu dögum ársins

20.01.2020 - 19:48
Mynd: Jóhannes Sigurðsson / RÚV
Að minnsta kosti sex alvarleg slys hafa orðið í umferðinni á fyrstu dögum ársins. Margir hafa slasast alvarlega og einn látist. Talið er að erfið akstursskilyrði skýri að minnsta kosti hluta slysanna.

Sævar Helgi Lárusson, rannsóknarstjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir að slysin séu óvenjumörg það sem af er ári. Mikið álag hefur verið á nefndinni á fyrstu dögum ársins.

„Þeir hafa bara verið erfiðir. Akstursaðstæður hafa verið hreint út sagt slæmar og hver lægðin á fætur annarri gengið yfir landið og fjölmörg alvarleg slys með fjölmörgum alvarlega slösuðum hafa orðið,“ segir Sævar.

Átta slys

2. janúar valt rúta með erlenda ferðamenn skammt frá Þingvöllum. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.

4. janúar fór rúta út af á Kjalarnesi og fjöldahjálparstöð var opnuð í Klébergsskóla. Engin alvarleg slys urðu á fólki.

10. janúar fauk gámur af flutningabíl á annan flutningabíl á Vesturlandsvegi, auk þess sem minni bíll lenti einnig í slysinu. Ökumaður flutningabílsins slasaðist töluvert, en talið er að hann nái fullum bata.

Sama dag valt rúta með hátt í fimmtíu læknanema skammt frá Blönduósi. Mikill viðbúnaður var vegna slyssins og opnuð var fjöldahjálparstöð. Þrír voru fluttir á slysadeild með þyrlu, þar af var einn alvarlega slasaður.

12. janúar varð banaslys á Reykjanesbraut nálægt álverinu í Straumsvík. Þá lentu snjóruðningstæki og fólksbíll í árekstri með þeim afleiðingum að ökumaður fólksbílsins lést.

17. janúar lentu tveir bílar í hörðum árekstri á Skeiðarársandi. Níu erlendir ferðamenn voru í bílunum tveimur. Þrjú börn og einn fullorðinn slösuðust alvarlega, en samkvæmt tilkynningu frá Landspítalanum í dag eru þau öll úr lífshættu.

Að kvöldi sama dags fór svo bíll í höfnina í Hafnarfirði. Þrír ungir drengir voru í bílnum og er ástand tveggja þeirra sagt alvarlegt.

Á laugardag varð svo harður árekstur á Sandgerðisvegi, þegar ökumaður bíls sem lögregla veitti eftirför, lenti í árekstri við annan bíl. Tvær konur voru í þeim bíl, önnur þeirra er í lífshættu og haldið sofandi í öndunarvél en hin hefur verið útskrifuð.

Er þetta óvenjumikið?

„Já, þetta hafa verið ansi mörg slys og kannski meira heldur en venjulega,“ segir Sævar.

Erfitt að lesa í veðurfar

Er einhver skýring á því, umfram aðra, hvers vegna svona mörg slys hafa orðið á fyrstu dögum ársins?

„Mörg þessara slysa hafa orðið þar sem akstursaðstæður hafa verið mjög slæmar, hálka í bland við mjög mikinn vind og miklar hviður. Og slabb jafnvel.“

Og það gæti spilað inn í ástæður einhverra þessara slysa?

„Sum hver já.“

Teljið þið að fólk, bæði Íslendingar og útlendingar, sé of duglegt við að fara út að keyra í alls konar veðrum?

„Það getur oft verið erfitt að átta sig á breytileika veðurs á jafnvel stuttum vegköflum. Það getur verið þokkalega gott hérna í bænum, en svo snarvitlaust uppi á Sandskeiði eða Kjalarnesi. Og fyrir mjög marga er það kannski erfitt að lesa í veðurfarið á Íslandi.“

Aðeins tveir starfsmenn rannsaka umferðarslys hjá nefndinni, og því hefur mikið mætt á þeim undanfarnar vikur.

„Já, það hefur verið talsvert álag á okkur það sem af er mánuði.“

Hvernig lýsir það sér?

„Það lýsir sér bara í fjölmörgum útköllum, mikilli yfirlegu og næturvinnu,“ segir Sævar.