Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjölmiðlalæsi og gagnrýnin hugsun mikilvæg

16.09.2019 - 12:46
Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
 Mynd: RÚV
Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir að samstarf þurfi við samfélagsmiðla og leitarvélar til að vinna gegn falsfréttum. „Svo er líka gríðarlega mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir því hvað er í gangi og þess vegna skiptir miðlalæsi og gagnrýnin hugsun máli.“

Elva Ýr hefur áður vakið athygli á þeirri ógn sem geti stafað af til dæmis falsfréttum. Hún tók þátt í pallborðsumræðum á opnum fundi Þjóðaröryggisráðs í Norræna húsinu í hádeginu. Falsfréttir, fjölmiðlalæsi, opin lýðræðisleg umræða og samfélagsleg gildi er meðal þess sem fjallað var um á fundinum. Rætt var við Elvu Ýr í hádegisfréttum. 

Áhrif falsfrétta á umræðu hér ekki verið könnuð

Hafa falsfréttir haft áhrif á umræðu hér á landi svo vitað sé til? „Það er eitt af því sem var rætt á fundinum að það vantar að kortleggja það hvernig staðan er á Íslandi. Við vitum að þetta hefur haft áhrif og það er búið að reyna að hafa áhrif í aðdraganda kosninga í mörgum löndum í kringum okkur. Þetta er búið að vera mikið í umræðunni allt frá árinu 2016 en kortlagning hér á landi held ég að sé mjög mikilvæg svo við áttum okkur á því hvernig Ísland stendur í þessu.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV