Fjölmennt í Grímsey um jól og áramót

23.12.2019 - 12:45
Innlent · Grímsey · jól · Norðurland · Mannlíf
Mynd með færslu
 Mynd: Karen Nótt Halldórsdóttir
Íbúafjöldi í Grímsey sjöfaldast yfir jól og áramót ef allir þeir sem boðað hafa komu sína þangað komast út í eyju. Grímseyingar segjast ekki ætla að láta erfiða umræðu um byggðamál undanfarið skemma jólagleðina.

Það hefur fjölgað mjög í Grímsey undanfarna daga, ef miðað er við þann fjölda sem dvalið hefur í eyjunni það sem af er desember.

55 manns í Grímsey um jólin ef allir komast

„Í byrjun aðventunnar þá voru nú bara einhverjir 15 og svo fór það niður í einhverja 6-7. Og við vorum 39 á jólahlaðborði núna um helgina," segir Anna María Sigvaldadóttir, umboðsmaður Grímseyjarferjunnar. Og hún reiknar með að það verði 55 manns í Grímsey um jól og áramót ef allir komast út í eyju. „Miðað við veðurspá í gær þá á allavega að verða komið gott veður á morgum og þá bara vonandi fljúga þeir með restina af póstinum og farþegunum."

Jólahlaðborð, bingó, skötuveisla og messa

Og hún segir að margir sem dvelji á Akureyri í vetur með börn sín í skóla, komi heim um jólin. Þá séu þetta til dæmis framhaldsskólanemar og brottfluttir. „Þannig að þetta eru nú bara Grímseyingar sem vilja vera heima," segir hún. Og það verður nóg við að vera. Anna María minntist á jólahlaðborðið, þá var jólabingó í gær, skötuveisla í kvöld og jólamessan verður á sínum stað. 

Vonar að erfið umræða spilli ekki jólagleðinni

En það hefur verið mikil umræða um byggð í Grímsey eftir að öflugasta sjávarútvegsfyrirtækið þar var selt fyrr í vetur. En Anna María vonast til að sú erfiða umræða hafi ekki áhrif á jólahald Grímseyinga. „Já, ég meina, á maður ekki bara að hugsa fallega um jólin og vera ekki að velta sér upp úr einhverju sem gerist í framtíðinni eða var verið að tala um núna í haust. Ég allavega nenni því ekki. Nú hugsum við bara; kveikjum á kerti og höfum það bara kósí og svoleiðis um jólin. Eins og allir aðrir vonandi." 

 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi