Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölgar í hópi þeirra sem afneita loftslagsvísindum

19.02.2020 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þeim sem telja loftslagsbreytingar ekki af mannavöldum hefur fjölgað mikið og eru sextíu prósentum fleiri en fyrir ári samkvæmt könnun Gallups. Sérfræðingur segir viðhorfsbreytinguna almenna og þvert á hópa. Níutíu prósent séu þó tilbúin til að breyta hegðun til að vernda umhverfi eða vega gegn loftslagsbreytingum.

Rúm 23 prósent telja loftslagsbreytingar ekki af mannavöldum en fyrir ári sögðust 14 prósent þeirrar skoðunar, samkvæmt könnuninni sem kynnt var í morgun. Það eru því tæplega 65 prósentum fleiri nú sem efast um skýringar vísindamanna. Jafnmargir telja of mikið mál gert úr áhrifum manna á loftslagsbreytingar. 

Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup, segir um almenna viðhorfsbreytingu að ræða, þvert á hópa. „Þessi hópur sem er að stækka, hann einkennist af því að það er fjölgun burtséð frá því hvort þú ert karl eða kona eða á hvaða aldri eða hvar þú býrð þannig að þetta virðist vera nokkuð almenn viðhorfsbreyting. Það er helst hópurinn sem er 40-55 sem færist yfir í það að telja að loftslagsbreytingar séu af náttúrulegum völdum,“ segir hann.

Tæplega níu af hverjum tíu segjast hafa breytt hegðun sinni síðastliðna 12 mánuði til þess að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslag og ögn færri segjast hafa breytt neysluvenjum. Færri segjast þó hafa breytt ferðavenjum, um sex af hverjum tíu. Helmingur segist hafa áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga.

Þrátt fyrir þetta segjast langfæstir, tveir af hverjum tíu telja að hegðun þeirra hafi mikil áhrif til að sporna gegn hlýnun jarðar. Meirihluti telur hins vegar að hegðun almennings á heimsvísu hafi mikil áhrif. 

Ólafur segir þó að mikilvæg niðurstaða úr könnuninni sé að 99 prósent svarenda telji að loftslagið sé að breytast. „Það er stóra talan. Og það sem kom líka í ljós og er mjög hvetjandi er að 90 prósent Íslendinga segjast vera tilbúin til þess að breyta hegðun til þess að vernda umhverfi og/eða til þess að vega á móti loftslagsbreytingum,“ segir hann.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir