Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjöldi fólks í fjöldahjálparstöð, enn fleiri á hótelum

13.01.2020 - 02:32
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Fólk streymir nú frá flugstöðinni í Keflavík eftir að vegurinn þaðan var opnaður um klukkan eitt og er unnið að því að koma fólki, sem átti bókaða flugferð með Icelandair í kvöld eða nótt, í húsaskjól. Um fjögur þúsund voru innlyksa í Leifsstöð þegar mest var, ýmist fólk sem kom þangað í dag og hugðist fljúga þaðan síðdegis eða í kvöld, eða fólk sem kom til landsins seinnipartinn og í kvöld og komst hvergi.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir nú unnið að því að flytja fólk í bæinn með rútum, sem verða í stöðugum ferðum svo lengi sem þess gerist þörf. Fólkið í síðarnefnda hópnum komst reyndar ekki út úr flugvélunum fyrr en um eða eftir miðnætti, eftir margra klukkustunda bið. Icelandair felldi niður allar flugferðir í kvöld.

1.500 - 2.000 manns í fjöldahjálparstöð eða á hótel

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að öllum farþegum félagsins sem beðið hafa á vellinum og eiga bókaða ferð snemma í fyrramálið í stað þeirrar sem féll niður í kvöld verði boðið að nátta í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í íþróttahúsinu í Reykjanesbæ. Öll hótel á suðurnesjunum eru uppbókuð, segir Ásdís, og það tekur því vart að fara með fólkið til Reykjavíkur, þar sem það þarf að mæta svo snemma aftur á flugvöllinn.

Þeir farþegar sem eiga tengiflug vestur um haf eftir hádegið á morgun verða hins vegar fluttir á hótel í Reykjavík. Alls eru það á bilinu 1.500 til 2.000 manns sem koma þarf í húsaskjól í nótt, að sögn Ásdísar, og meirihlutinn fær inni á hótelum. 

Wizz Air, Easy Jet og Norwegian fljúga og fresta

Vél Wizz Air til Lundúna sem átti að fara klukkan 18.45, fór í loftið klukkan rúmlega eitt og áætlað er að vélin til Varsjár fari í loftið klukkan 02.10. Fluginu til Riga var aftur á móti frestað til morguns. Norwegian hyggst birta næstu upplýsingar um brottfarartíma vélar sinnar til Tenerife klukkan þrjú, og það ætlar EasyJet líka að gera um brottfarartíma sinnar vélar til Lundúna. Félagið aflýsti hins vegar Edinborgarflugi sínu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV