Fjölda fólks meinaður aðgangur að tónleikum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv/freyr arnarson - rúv

Fjölda fólks meinaður aðgangur að tónleikum

20.06.2016 - 00:26

Höfundar

Hundruð eða jafnvel þúsundir gesta á Secret Solstice-tónlistarhátíðinni stóðu enn í röð við gömlu Laugardalshöllina skömmu fyrir miðnætti í veikri von um að komast inn að sjá átrúnaðargoð sín í suðurafrísku hljómsveitinni Die Antwoord. Sveitin átti að spila utandyra fyrr í dag en vegna seinkana á flugi til landsins varð að fresta tónleikunum fram á kvöld. Það þýddi einnig að færa varð tónleikana inn í hús, vegna reglna um almannafrið. Töluverður fjöldi beið enn inngöngu seint á fyrsta tímanum.

Tónleikarnir hófust um klukkan ellefu í upprunalegu eða „gömlu“ Laugardalshöllinni, sem aðeins rúmar um 5.000 gesti svo vel sé. Ríflega þrefalt fleiri keyptu sér aðgang að hátíðinni í ár og ljóst að Die Antwoord átti drjúgan þátt í aðdráttaraflinu.

Nokkrir óánægðir hátíðargestir höfðu samband við fréttastofu á tólfta tímanum og tjáðu óánægju sína með stöðu mála þar sem þeir stóðu í biðröðinni, löngu eftir að sveitin hóf leik, og töldu litlar sem engar líkur á að komast inn til að berja goðin augum og hlustum. Var fólki nokkuð heitt í hamsi.

Þeir sem komust inn í höllina skemmtu sér þó hið besta þótt þröng væri á því þingi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv/freyr arnarson - rúv
Die Antwoord í Laugardalshöllinni
Mynd með færslu
 Mynd: rúv/freyr Arnarson - rúv

Tengdar fréttir

Innlent

Löng röð eftir því að sjá Die Antwoord