Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjögur hundruð þrælar á Íslandi

31.05.2016 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á Íslandi er áætlað að séu fjögur hundruð vinnuþrælar samkvæmt nýrri alþjóðlegri rannsókn sem birtist í dag. Ísland er í fertugasta og níunda sæti á heimsvísu hvað varðar hlutfall þræla af heildarfólksfjölda. Yfir 45 milljónir eru bundnar þrældómi í heiminum.

Þrátt fyrir að Ísland sé frekar neðarlega á listanum á heimsvísu þá eru þó flest þau lönd sem við berum okkur saman við neðar á listanum. Hlutfall þræla er til að mynda minna í Brasilíu, Bandaríkjunum og flestum löndum Vestur-Evrópu.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru fengnar með 42 þúsund viðtölum í 167 löndum víða um heim. Rannsóknin var unnin af Gallup á heimsvísu.

Þrælahald er skilgreint þannig að fólk vinnur við aðstæður sem það getur ekki yfirgefið vegna hótana, ofbeldis, harðstjórnar, valdníðslu eða svika.

Skýrslan skoðar einnig hvernig stjórnvöld takast á við þrælahald. Ísland kemur frekar illa út úr þeirri skoðun. Ísland fær einkunnina B sem er lægsta einkunn Norðurlandaþjóða og með þeim lægstu í Evrópu.

Skemmst er að minnast mansalsmálsins í Vík í Mýrdal þar sem maður er grunaður um að hafa haldið tveimur konum í vinnuþrælkun á saumastofu á heimili sínu í Vík.