Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjarvera Katrínar vekur athygli heimsfjölmiðla

22.08.2019 - 11:09
Mynd með færslu
Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, saman á Þingvöllum. Mynd: Stjórnarráðið
Ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, um að sækja ráðstefnu í Svíþjóð meðan varaforseti Bandaríkjanna kemur hingað í opinbera heimsókn, hefur vakið athygli fjölmiðla víða um heim. „Forsætisráðherra Íslands sleppir heimsókn Pence. Hún segist ekki vera að hunsa hana,“ segir í fyrirsögn Washington Post af málinu. Margir aðrir fjölmiðlar víða um heim hafa greint frá þessu, eftir að fréttaveitan Associcated Press sagði tíðindin í gær.

Eins og fram hefur komið í fréttum RÚV, hefur Katrín ákveðið að sækja ráðstefnu Norrænu verkalýðshreyfingarinnar í Malmö í Svíþjóð 4. september; daginn sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna kemur hingað til lands.  Katrín sagði ennfremur, í viðtali við RÚV, að heimsóknin sem utanríkisráðuneytið skipuleggur hafi verið „á töluverðu flakki í dagatalinu, þannig að það hefur verið erfitt að skipuleggja sig út frá henni.“

„Aldrei gerst áður“

Í frásögn útvarpsstöðvarinnar NPR, National Public Radio, í Bandaríkjunum er tekið fram að ákvörðun Katrínar hafi verið tekin áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýsti heimsókn sinni til Danmerkur, vegna fálegra undirtekta ráðamanna þar og á Grænlandi við hugmyndum Trumps um að kaupa Grænland. 

Í frétt Associated Press segir Þór Witehead prófessor í sagnfræði að ákvörðun Katrín eigi sér ekki hliðstæðu. „Ég efast um að nokkur annar leiðtogi vestræns ríkis myndi ákveða að ávarpa samkomu erlendis, í stað þess að taka á móti leiðtoga mikilvægs bandalagsríkis.“ Nýsjálenski fjölmiðillinn nzherald.com leggur út af þessum orðum Þórs í fyrirsögn sinni: „'Unprecedented': Iceland prime minister 'snubs' US vice president Mike Pence's visit“ - og í fyrirsögn Washington Post er einnig talað um að Katrín segist ekki vera að hunsa heimsóknina. Sami tónn er í fyrirsögn Time Magazine af málinu: „Iceland's Prime Minister Says She'll Skip Mike Pence's Visit, Citing 'Prior Commitments'“

 

 

 

 

 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV