Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjársjóður Haraldar blátannar fundinn

16.04.2018 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Tómstundafornleifafræðingar fundu nýlega stóran fjársjóð sem talinn er hafa verið í eigu víkingakonungsins Haraldar blátannar. 

René Schön, sem leitar að fornleifum í frístundum sínum og 13 ára vinur hans, Luca Malaschnitschenko, fundu þrjá silfurpeninga á eyjunni Rügen í janúar. Þessar myntir eru raktar til þess tíma þegar Haraldur blátönn ríkti í Danmörku á 10. öld. 

Ákveðið var að hefja frekari uppgröft á eynni og nú þegar búið er að rannsaka 400 fermetra með mikilli leynd, hafa fundist meira en 600 munir, silfurpeningar, hálsmen, Þórshamrar, nælur, perlur og hringar.

Michael Schirren, sem hefur stýrt uppgreftrinum, segir að þetta sé stærsti einstaki fundur fornleifa frá tíma Haraldar blátannar, og hann sé því afar merkilegur.

Þessi silfurfundur er ekki fyrstu víkingafornleifarnar sem finnast á norðausturströnd Þýskalands. 1872 og 1874 fannst stór skartgripur úr gulli í 16 hlutum á eyjunni Hiddensee sem liggur nálægt Rügen. Hann er líka talinn hafa tilheyrt Haraldi blátönn eða einhverjum úr hirð hans.

Sagnfræðingar telja þetta benda til þess að Haraldur hafi verið á flótta þegar hann ákvað að grafa fjársjóðinn. Árið 986 átti víkingakonungurinn í stríði við son sinn Svein tjúguskegg. Það endaði með blóðugum bardaga við Helganes þar sem Haraldur laut í lægra haldi. Um kvöldið fór hann út í skóg til að ganga örna sinna og varð þá fyrir ör. Helsærður flýði hann til Jómsborgar, sem talin er hafa legið við suðurströnd Eystrasalts. Þar lést hann stuttu síðar og var jarðsettur við Hróarskeldudómkirkju, sem hann lét sjálfur reisa, en Haraldur blátönn hafði forgöngu um að kristna dönsku þjóðina.

Þess má geta að Bluetooth-tæknistaðallinn sem flestir farsíma- og tölvunotendur þekkja er nefndur eftir Haraldi blátönn.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV