Fjarlægur faðir og fyrrum hermaður málar hús með heilum

Mynd: Netflix / The Irishman

Fjarlægur faðir og fyrrum hermaður málar hús með heilum

26.11.2019 - 17:05

Höfundar

The Irishman er að mati kvikmyndarýnis Lestarinnar stórfín mafíumynd með öllu tilheyrandi. „Scorsese stendur við sitt, og kemur meira að segja dálítið á óvart líka,“ segir Gunnar Theodór Eggertsson um nýjustu þriggja og hálfs tíma mafíuepík aldna meistarans Martins Scorsese.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Í The Irishman snýr reynsluboltinn Martin Scorsese aftur til mafíumyndarinnar eftir þónokkurt hlé til að segja epíska sögu um ævistarf launmorðingja í vinnu Bufalino-mafíunnar. Kvikmyndin The Irishman, eða Írinn, er skrifuð af Steven Zaillian og byggist á bókinni I Heard You Paint Houses eftir Charles Brandt, um líf hins írska Frank Sheeran, sem er leikinn af Robert De Niro. Myndin er marglaga í frásögn sinni, en römmuð inn af Sheeran sitjandi einum á elliheimili að segja okkur áhorfendum sögu sína, frá því að hann komst fyrst í kynni við skipulagða glæpastarfsemi, hvernig hann varð hægri hönd verkalýðsleiðtogans Jimmy Hoffa og allar þær miklu pólitísku og persónulegu flækjur sem því fylgdu. Scorsese leiðir saman þrjá stórleikara úr glæpamyndum, en auk De Niros fer Al Pacino með hlutverk Hoffa og Joe Pesci með hlutverk höfuðpaursins Russells Bufalino.

Saknaði fjölskyldunnar

The Irishman er löng mynd sem segir stóra sögu í gegnum takmarkað sjónarhorn aðalpersónunnar Franks. Hún drepur á fjölmörg atriði úr bandarískri sögu sem eru reglulega áhugaverð, t.d. um tengsl mafíunnar og stéttarfélaganna, um Kennedy-bræður og Kúbu, en fyrst og fremst um sögu Jimmy Hoffa, sem ég verð að játa að ég vissi lítið um annað en að hann hafi horfið, eins og frægt er. Hún er meistaralega vel klippt og samansett – enda nær samstarf Scorsese og klipparans Thelmu Schoonmaker ansi langt aftur – og nær að fanga þá flóknu pólitísku glæpaveröld sem aðalpersónan Frank hrærist í og setja fram lífshlaup hans á snjallan og myndrænan hátt. En hún er vissulega ansi löng, slær út annan hluta Guðföðurins hvað það varðar, og það eru þræðir sem hefði mátt stytta, en að sama skapi eru líka þræðir sem hefðu mátt fá meira pláss.

Kannski er þetta einfaldlega spurning um smekk, en sjálfur upplifði ég þreytu inni á milli þegar pólitíkin náði yfirráðum í sögunni, bæði innanbúðar hjá mafíunni og út á við hjá stéttarfélaginu – og saknaði til dæmis að fá aldrei að dvelja við fjölskyldulíf Franks. Vissulega er það ákveðin yfirlýsing að halda þeim fjarri, því sagan er jú sögð frá hans sjónarhorni og hann er fjarlægur faðir og eiginmaður, en engu að síður hefði ég viljað sjá meira af þeirri hlið samhliða starfinu, því það sló mig sem undarlegt ójafnvægi þegar svona langt handrit afgreiðir til dæmis hjónaskilnað með þrjú börn í einni setningu og svo ekki söguna meir.

Pólitíkin, mafían og stéttarfélagið er auðvitað meginefni sögunnar, en það er ekki kjarninn, því hann er mun persónulegri og snýr að karakterstúdíu á Frank sjálfum og vinskap hans við Hoffa og það er í persónusköpun Franks sem myndin nær sínum allra mestu hæðum. Aðalleikararnir þrír eru stórkostlegir og De Niro þarf að draga fram flóknar og erfiðar tilfinningar í gegnum kuldalega persónu og skilar því virkilega vel. Frank var hermaður í seinni heimsstyrjöld sem sá meðal annars um að taka óvini af lífi miskunnarlaust, eftir að hafa látið þá grafa sínar eigin grafir, og fer þaðan yfir í að myrða fólk á laun fyrir mafíuna – að „mála hús“, eins og það er kallað, sem vísar til þess þegar blóðið slettist á veggina. Frank er greinilega löngu orðinn ónæmur fyrir ofbeldinu, en þegar spjótin fara að beinast að vini hans, er ekkert einfalt lengur við launmorðin.

Alltumlykjandi tregi

Síðasti hluti myndarinnar er meistaralega vel smíðaður og auðvitað byggist sú innlifun áhorfandans á því hversu vel er búið að rækta vinskapinn í fyrri hlutanum. Og ég var virkilega hrifinn af því hversu lengi Scorsese leyfir sögunni að ganga, því síðasti hálftíminn færir í raun alveg nýjan blæ inn í mafíumyndina. Þannig virkar hún líka eins og nokkurs konar kveðjustund, því það er rafmagnað að sjá þessa þrjá stórleikara saman á tjaldinu, gamlir menn þótt þeir séu yngdir upp stafrænt – og ég gleymdi því fljótt að þeim væri breytt í tölvu – og sérstaklega Joe Pesci, sem var svo gott sem sestur í helgan stein, því hann sýnir á sér allt aðra hlið en maður er vanur.

epa07939017 US director Martin Scorsese arrives for the screening of 'The Irishman' at the 14th annual Rome Film Festival, in Rome, Italy, 21 October 2019. The film festival runs from 17 to 27 October 2019.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Martin Scorsese við frumsýningu The Irishman á kvikmyndahátíðinni í Róm.

Það er líka ákveðinn tregi yfir myndinni út í gegn og allt önnur stemning en til dæmis í Goodfellas frá 1990, ekki sami glaumurinn og gleðin; mafían virkar ekki töff og síður en svo lokkandi, heldur meira eins og pólitískt fen sem gleypir alla á endanum. Það er engin upphafning, engar partísenur, ekkert Wolf of Wall Street neitt – bara kaldranalegur veruleiki, síaður í gegnum atvinnumorðingja sem hefur fyrir löngu lært að hlýða sínum skipunum, og sama hvað. The Irishman skín hvað skærast þegar hið persónulega er í fyrirrúmi og er á heildina litið stórfín mafíumynd með öllu tilheyrandi. Mig grunar nú að flestir sem fari á hana í bíó viti nokkurn veginn að hverju gengið er, og Scorsese stendur við sitt, og kemur meira að segja dálítið á óvart líka.

The Irishman er sýnd í Bíó Paradís fram á laugardag en lendir á Netflix í vikunni.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þetta tröllríður öllu og það er tómt rugl!“

Menningarefni

Heimspekilegt ferðalag fallinna presta

Mynd með færslu
Menningarefni

Jagger og Scorsese vildu fá Kaleo