Fjarðarheiði ógn allt of stóran hluta árs

05.06.2019 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ferðamenn og íbúar á Austurlandi hafa þurft að þola vetrarfærð á fjallvegum undanfarna viku ekki síst á Fjarðarheiði. Fella þurfti niður skoðunarferðir frá Seyðisfirði enda eru rútur fyrir löngu komnar á sumardekk og gististaðir í bænum hafa orðið af viðskiptum eftir að ferðamenn lentu utan vegar. Forseti bæjastjórnar á Seyðisfirði segir Seyðfirðinga hafa mætt skilningsleysi gagnvart þeirri ógn sem stafi af Fjarðarheiði og að samgöngubætur séu forsenda sameiningar við önnur sveitarfélög.

Talsverður snjór var á Mjóafjarðarheiði í morgun og lentu ferðamenn þar í vandræðum og einn bíll út af. Mikil umferð er brostin á enda ferðamannatíminn hafinn. Þá er ekki hægt að segja að það hafi verið sumarlegt uppi á Fjarðarheiði í dag á leiðinni til Seyðisfjarðar þó kominn væri 5. júní. Þar var hálka og skafrenningur, mikill krapi safnast á veginn og ferðaþjónustufyrirtæki hafa ekki treyst sér yfir heiðina með rútur á rennisléttum sumardekkjum.

Talsverð umferð var þó yfir Fjarðarheiði í dag enda Norræna í höfn og með skipinu komu um 180 farartæki í gær. Á Seyðisfirði voru líka tvö skemmtiferðaskip í gær og Tanni Travel ætlaði með á annað hundrað farþega úr þeim yfir heiðina í skoðunarferðir en varð að hætta við og fara í gönguferðir innanbæjar í staðinn. „Ef við hefðum verið með vetrarbúna bíla þá hefði það alveg gengið upp því auðvitað keyrum við yfir Fjarðarheiði á veturna þegar bílarnir eru rétt græjaðir. En nú er bara komið sumar á Íslandi þannig að við vorum aðeins með einn bíl á vetrar dekkjum,“ segir Díana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Tanna Travel.

Seyðfirðingar eru líka löngu komnir á sumardekk og Örvar Jóhannsson, rafvirki og rútubílstjóri, er einn þeirra sem hafa þurft að láta sig fljóta yfir krapann á heiðinni. „Þetta er náttúrulega ekkert í líkingu við það sem maður á að venjast í lok maí og byrjun júní. Að bílar séu í brasi dag eftir dag á heiðinni vegna snjóa. Við höfum alveg átt því að venjast að þetta sé sérstakt vandamál yfir háveturinn en að vetrarfærð sé orðin vandamál um hásumar. Þetta sýnir það hversu raunveruleg þörf er á því að fá göng undir fjallið. Það er eina raunverulega samgöngubótin sem við gætum fengið í okkar málum,“ segir Örvar.

Davíð Kristinsson, hótelstjóri á hótel Öldunni, segir að ferðamenn sem áttu að koma þangað í gær hafi lent út af og hætt við að koma og gista. Hann áætlar að tekjutap Öldunnar vegna ófærðar á Fjarðarheiði síðustu daga nemi um 200 þúsund krónum. „Það munar um svoleiðis þegar maður þarf að byggja reksturinn á 3 mánaða tímabili,“ segir Davíð í samtali við fréttastofu.

Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, segir tímabil sem þessi, þegar færð spillist á Fjarðarheiði, hafi mjög víðtæk áhrif. „Það hefur fækkað um 143 manns á Seyðisfirði frá aldamótum. Það er fyrst og fremst vegna slæmra samgangna. Við teljum okkur hafa mætt ótrúlegu skilnings- og skeytingarleysi gagnvart þeirri ógn sem Fjarðarheiði er allt of stóran hluta úr ári.“

Hildur segir að ráðamenn Seyðisfjarðarkaupstaðar og þriggja annarra sveitarfélaga sem eiga í sameiningarviðræðum hafi sett þrýsting á samgönguráðuneytið að leysa samgönguvanda Seyðfirðinga. „Ekki síst í ljósi sameiningarviðræðnanna sem hafa verið í gangi en fyrirhugaðar eru kosningar í árslok. Bættar samgöngur eru lykilatriði í hugum Seyðfirðinga ef það á að sameinast. Það skýtur skökku við ef samgönguráðherra boðar sameiningu sveitarfélaga en ætlar svo ekki að bregðast við afdráttarlausri ósk Seyðfirðinga til áratuga. Ef samgöngur verða ekki bættar á fyrsta tímabili samgönguáætlunar er erfitt að koma auga á kosti sameiningar fyrir smærri sveitarfélögin í viðræðunum,“ segir Hildur. 

Horfa á fréttatíma