Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjarðarheiði lokuð á ný

02.03.2020 - 19:50
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Búið er að loka Fjarðarheiði á ný, en fylgdarakstur hefur verið yfir heiðina í dag. Vonast var til þess að hægt yrði að hleypa umferð yfir án fylgdar síðar í kvöld, en nú er ljóst að það verður ekki og staðan ekki endurmetin fyrr en í fyrramálið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur veður versnað mikið á heiðinni og því þurfti að loka veginum. Áður en opnað var fyrir fylgdarakstur í dag hafði heiðin verið ófær frá því á föstudag, eða í rúma fjóra daga.

Björgunarsveitirnar Ísólfur á Seyðisfirði og Hérað á Egilsstöðum voru rúma sjö tíma að koma sjúklingi yfir ófæra Fjarðarheiði á laugardag og sagði bæjarstjóri Seyðisfjarðar það átakanlegt að þurfa að búa við slíka einangrun. Þorpsbúar reiði sig að miklu leyti á þjónustu sem sé ekki að fá á Seyðisfirði.