Fjarðabyggð harmar umfjöllun um alifugla

26.11.2019 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Fjarðabyggð harmar umfjöllun um kröfur sveitarfélagsins á hendur eiganda alifugla á Fáskrúðsfirði. Í yfirlýsingu frá sveitarfélaginu kemur fram að aldrei hafi verið gerð krafa um að þrjátíu alifuglum sem hafi aðsetur á Fáskrúðsfirði yrði lógað.

Hafa áhyggjur af því að fuglunum verði kalt 

Í frétt á mbl.is á laugardaginn kom fram til stæði að aflífa þrjátíu aliendur í dag, fái þær ekki húsaskjól fyrir veturinn. Ástæða þess væri sú að starfsfólk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar hefði áhyggjur af því að án húsaskjóls yrði öndunum ískalt og því þyrfti að lóga þeim. Þar kom fram að Umhverfisstjóri Fjarðabyggðar hafi haft samband við eiganda fuglanna með það að sjónarmiði að gerðar yrðu úrbætur á aðbúnaði dýranna, og vísaði í samþykkt sveitarfélagsins, sem kveður á um að á lóðum þar sem veitt er leyfi fyrir fiðurfé þurfi að vera hæfilega stór kofi sem rúni þann fuglana.

Gæfar endur í miklum metum hjá bæjarbúum

Óðinn Magnason, íbúi á Fáskrúðsfirði, sagði í viðtali á Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær að hann væri bjartsýnn á að bæjaryfirvöld leyfi öndunum að lifa. Hann sagði endurnar ekki vanar að dveljast innandyra og að síðust ár hafi þær lifað veturinn af án vandkvæða. Þá séu endurnar gæfar og í miklum metum hjá bæjarbúum. Þær hafi komið upp eggjum og ungum og verið látnar algjörlega í friði. 

Vilja að fuglarnir séu fjarlægðir, ekki aflífaðir

Fjarðabyggð sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að aldrei hafi verið gerð krafa af hálfu sveitarfélagsins að umræddum fuglum yrði lógað. Gerð hafi verið krafa um að fuglarnir yrðu fjarðlægðir þar sem aðbúnaður þeirra uppfyllti ekki samþykkt Fjarðabyggðar hvað varðar fiðurfé. 

Rétt sé að aliendurnar hafi verið mörgum til mikillar gleði. Góð fordæmi um aðbúnað alianda í sveitarfélaginu séu meðal annars á Reyðarfirði og í Breiðdal, þar hafi fuglarnir skjól og séu undir umsjón eiganda sinna. Engin fyrirstaða sé að hálfu sveitarfélagsins að slíkri aðstöðu verði komið upp á Fáskrúðsfirði. 

Unnið að lausn í samráði við eigenda

Þórður Vilberg Guðmundsson, upplýsingafulltrú Fjarðabyggðar, segir í samtali við fréttastofu að endurnar verði ekki aflífaðar í dag. Unnið sé að lausn málsins í samráði við eiganda þeirra. „Hver sú lausn verður vitum við ekki, það verður að koma í ljós. En það hefur aldrei komið neitt frá Fjarðabyggð um að þessar endur verði aflífaðar.“ 

Aliendurnar séu alfarið á ábyrgð eigandans og tekur sveitarfélagið því ekki þátt í að gera úrbætur á aðstöðu þeirra. „Sveitarfélagið mun ekki taka þátt í kostnaði við þetta frekar en í öðrum svona tilfellum. Það er eigandi andanna sem ber fyrst og fremst ábyrgð á velferð þeirra,“ segir Þórir. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi