Fjallkonan sjálf er fundin - hún er í Wales

Mynd með færslu
Frummynd Zweckers og tréristan svart-hvíta, sem unnin var eftir henni. Mynd: Wikipedia - Wikipedia (samsett mynd)

Fjallkonan sjálf er fundin - hún er í Wales

16.11.2019 - 08:43

Höfundar

Þau tíðindi urðu í vikunni að Íslendingar litu fyrsta sinni augum sjálfa Fjallkonuna í fullum skrúða og fögrum litum. Fjallkona þessi er þó ekki holdi klædd, heldur máluð af þýska listamanninum Johann Babtist Zwecker á sjöunda áratug nítjándu aldar.

Íslendingar þekkja þessa mynd mætavel, en þó helst sem svarthvíta tréristu, sem æ síðan hefur verið endurprentuð á veggspjöld, frímerki, stuttermaboli og jafnvel farsímahulstur. Þá dró Benedikt Gröndal upp nokkuð nákvæma eftirlíkingu af henni, sem hann lét prenta á þjóðhátíðarspjald sitt árið 1874.

Það sem fæstir vissu - fyrr en nú - er að frummyndin, litfögur vatnslitamynd Zweckers, sem unnin var eftir fyrirsögn Eiríks Magnússonar, bókavarðar í Cambridge og mikilvirks þýðanda íslenskra þjóðsagna yfir á enska tungu, hefur verið varðveitt í háskólanum í Aberystwyth í Wales allar götur frá 1882. Það ár lést eigandi myndarinnar og samverkamaður Eiríks, Walesmaðurinn George E.J. Powell, en hann ánafnaði háskólanum þessa mynd og marga dýrgripi aðra í erfðaskrá sinni.

Fyrstu Íslendingarnir til að líta fjallkonuna augum í hálfa aðra öld

Þeir Guðmundur Oddur Magnússon, eða Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands, og listamaðurinn Unnar Örn, fóru til Aberystwyth í líðinni viku og litu gripinn augum. Í grein á heimasíðu háskólans er haft eftir Goddi að þeir Unnar séu að líkindum fyrstu Íslendingarnir til að líta þessa hartnær 160 ára frum-fjallkonu augum, síðan Eiríkur Magnússon var á dögum, en tilvist frummyndarinnar var flestum gleymd þar til alveg nýverið.

Kápumynd á enskri útgáfu íslenskra þjóðsagna

Þeir Eiríkur og Powell gáfu út íslenskar þjóðsögur á ensku og réði Powell Zwecker til að mála myndina af fjallkonunni, eftir fyrirsögn Eiríks, en Zwecker var þá vinsæll myndskreytir í Bretlandi. Var tréristan svart-hvíta svo gerð eftir frummyndinni og notuð sem kápumynd á annað bindi íslensku þjóðsagnanna. Zwecker málaði fleiri myndir fyrir Powell, sem líka prýddu ensku útgáfuna af þjóðsögunum á formi trérista.

Ýtarleg lýsing Eiríks á fjallkonunni

Á vef háskólans í Aberystwyth kemur fram að leiðir þeirra Powells og Eiríks Magnússonar lágu saman í gegnum bandaríska skáldið Henry Wadsworth Longfellow. Powell var aðdáandi Jóns Árnasonar, þjóðsagnasafnara, og ráðlagði Longfellow honum að fá Eirík til liðs við sig við að þýða verk hans. Zwecker fylgdi fyrirmælum Eiríks giska vel, en þau voru nokkuð ýtarleg.

Í bréfi til Jóns Sigurðssonar lýsir Eiríkur myndinni og táknheimi hennar svo:

Konumyndin á að tákna Ísland, því hefur hún ískórónu á höfði, sem eldar gjósa upp úr. Á öxl hennar er hrafninn, Íslands einkennilegasti fugl, Óðins forni vin og skáldanna eftirlætisgoð, fréttafugl mikill og margkunnugur. Yfir sjónum flögrar már, en yfir brimsævi tíma og sögu berast rúnakefli að landi eða upp í fang konunni, og hefur hún þegar náð einu þeirra. Þetta átti svo sem að vera symbolum (tákn) bókmenntalandsins og sögulandsins okkar. Yfir er nótt og stirndur himinn og máninn uppi. Á bak við eru fjöll, tunglroðin á eggjunum. 

Goddur spáir ferðamannastraumi til Aberystwyth

Aberystwyth hefur ekki verið ofarlega á lista ferðaglaðra Íslendinga fram til þessa, en á því gæti orðið breyting nú, þegar tákngervingur íslensku þjóðarinnar er komin upp úr skúffunni og upp á vegg í háskóla þess ágæta bæjar. Það er að minnsta kosti trú Guðmundar Odds, sem vinnur að útgáfu bókar og sýningar um fjallkonuna í samvinnu við Þjóðarbókhlöðuna og Háskólabókasafnið.

Deildarstjóri listadeildar háskólans, prófessor Robert Meyrick, segir í greininni að þar á bæ hafi fólk verið meðvitað um mikilvægi þeirra málverka, listaverka, bóka og sendibréfa, sem Powell ánafnaði skólanum á sínum tíma, „en við höfðum ekki gert okkur grein fyrir því, hversu gríðarlegt, menningarsögulegt gildi myndin okkar af Fjallkonunni hefur fyrir íslensku þjóðina.“

Hefur háskólinn nú þegar sett myndina inn á Wikipediu, svo Íslendingar og heimsbyggðin öll geti skoðað fjallkonu Zweckers í allri sinni dýrð.

Leiðrétt: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var ranghermt að veggspjald Benedikts Gröndals hefði verið prentað eftir tréristunni. Hið rétta er að Benedikt dró sjálfur upp eftirmynd af mynd Zweckers.