Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjall eða fell, lækur eða á...

01.10.2019 - 09:56
Mynd: Einar Rafnsson / RÚV/Landinn
„Tjarnir eru minni fyrirbæri heldur en vötn í kortagerð. En það er ekki endilega þar með sagt að það eigi við þegar kemur að því að gefa þeim nafn," segir Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstöðumaður Landmælinga Íslands. „Við höfum dæmi, t.d. á Mýrunum, þar sem er fjöldi tjarna og vatna að það sem heitir tjörn getur verið stærra en það sem heitir vatn."

Landinn gerði úttekt á því hvort hægt sé að setja einhvern mælikvarða á landslag út frá örnefnum. Við skoðuðum hvort það sé merkjanlegur munur á fjalli og felli, á og læk o.s.frv..

Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur segir að þegar örnefni hafi verið búin til hafi endingin ráðist af geðþótta frekar en að farið hafi verið eftir einhverjum stöðlum. Hún segir það ekki skipta öllu hvort mishæð í landslagi heiti fjall eða fell. Aðalmálið sé að farið sé rétt með örnefni.

„Það getur verið mjög viðkvæmt mál ef maður fer rangt með örnefni. Þannig að maður þarf alltaf að vanda sig ógurlega þegar maður kemur á nýja staði og helst vera búinn að undirbúa sig og læra svona helstu örnefni til að fara ekki rangt með.  Maður getur móðgað fólk," segir Birna.

gislie's picture
Gísli Einarsson