Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fita og blautklútar mynda fituhlunka í skólpi

11.01.2019 - 19:12
Mynd:  / 
Árlega fara um 70-80 milljón tonn af skólpi gegnum hreinsistöðvar Veitna. Þar af eru um 200 tonn af fitu sem hellt er í niðurföll. Áætlað er að um 65 tonn af blautþurrkum sé hent í klósett á ári.

Við hreinsun á skólpi finnast oft ýmsir munir sem hafa lent í klósettinu, eins og símar, greiðslukort og jafnvel tennur. Í fráveituúrgangi má einnig finna fleira rusl, t.d. dömubindi, túrtappa, eyrnapinna, og tannþráð. Langstærsta vandamálið eru aftur á móti blautklútarnir, sem allt of margir henda í klósettið. Það gerist ítrekað að blautklútar stífla skólphreinsidælur á höfuðborgarsvæðinu. 

„Flestir þessir klútar eru úr rosalega fínum plasttrefjum, og leysast alls ekki upp eins og klósettpappír gerir í fráveitukerfinu,“ segir Íris Þórarinsdóttir tæknistjóri fráveitu hjá Veitum. 

Blautklútarnir vefjist utan um dælurnar og blandist við fitu og annan úrgang.  „Og myndar köggla, og það er þetta sambland af blautklútum og öðru rusli, og fitu, sem líka kemur mikið í fráveitukerfið en ætti ekki að gera það, sem er að mynda þessa fituhlunka.“

200 tonn af fitu á ári

Greint var frá því breskum fjölmiðlum á dögunum að 64 metra langur fituhlunkur fannst í holræsakerfi strandbæjarins Sidmouth í Devonskíri á Suður-Englandi. Talið er að það taki allt að átta vikur að fjarlægja hlunkinn, sem samanstendur mestmegnis af matarolíu, steikarfeiti og blautþurrkum. 

„Við höfum ekki verið að sjá svona stóra fituhlunka hér, en þetta hefur samt verið vandamál á smærri skala, sérstaklega í dælukerfinu okkar,“ segir Íris.

Fitan er hreinsuð frá skólpinu í í hreinsistöðinni, henni safnað í sérstakt hólf og hún síðan flutt til urðunar. Á hverju ári fara um 200 tonn af fitu gegnum skólphreinsistöðvar á höfuðborgarsvæðinu, eða á við 17 strætisvagna. Fitan er sambland af matarolíu, steikingarfeiti og annarri olíu sem fellur til við matargerð og fólk hellir í niðurföll.

„Fráveitukerfið er hannað miðað við þennan líkamlega úrgang sem kemur frá okkur og klósettpappír,“ segir Íris. Ekkert annað eigi að fara í klósettið eða niðurfallið. Veitur safna árlega um 130 tonnum af grófum úrgangi sem er síaður úr skólpinu í hreinsistöðvunum. Áætlað er að minnst helmingur úrgangsins sé blautklútar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Það er ýmislegt sem endar óvart í klósettinu. Öðru sturtar fólk viljandi niður.
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV