Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fiskidagurinn mikli settur í 19. sinn

09.08.2019 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Fiskidagurinn mikli á Dalvík er settur í 19. sinn í dag. Dagskráin er að venju veigamikil og hátíðargestir streyma að. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að eitt af tjaldstæðum bæjarins hafi verið orðið þéttsetið strax á mánudag. Hann hefur engar áhyggjur af veðurspánni og þau séu tilbúin að taka á móti allt að 30.000 gestum eins og síðustu ár.

Það var glatt yfir Júlíusi Júlíussyni framkvæmdastjóra Fiskidagsins mikla þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann sagði blíðskaparveður á Dalvík og var bjartsýnn á helgina. Ómögulegt sé að vita hversu margir komi á hátíðina enda séu ekki seldir aðgöngumiðar, þau séu hins vegar undirbúin fyrir að taka á móti 30.000 manns líkt og síðustu ár. 

Júlíus gefur ekki mikið fyrir slæma veðurspá enda sé veður ekki það sama og veðurspá. Slæm spá hafi yfirleitt ekki áhrif á fjölda gesta en hafi þau áhrif að gestirnir mæti seinna en ella. Spáin hafi hins vegar ekki áhrif á trygga fastagesti hátíðarinnar sem hafi komið strax í byrjun vikunnar. „Við höfum engar áhyggjur af veðrinu, við höldum okkar striki og hér verður allt eins og það á að vera. Þeir sem mæta fá að njóta lystisemdanna,“ segir Júlíus.

Dagskráin er veigamikil að venju og hefst hátíðin kl. 18 í kvöld með vináttukeðjunni svokölluðu. Þar verður tónlist og skemmtun og að venju risaknús sem á að leggja línurnar fyrir helgina. Fiskidagssúpan verður á sínum stað og er gestum og gangandi boðið upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum. Á laugardagskvöld er tónleikaveisla og flugeldasýning. Hátíðin er sú 19. sem er haldin og segir Júlíus að þau séu þegar farin að huga að atriðum fyrir stórafafmæli næsta árs.