Fimmti læknirinn segir upp störfum

23.10.2019 - 22:08
Mynd: Reykjalundur / Reykjalundur
Fimm læknar af tólf hafa nú sagt upp störfum á Reykjalundi. Framkvæmdastjóri lækninga segir uppsagnirnar hafa mikil áhrif á starfsemina og að ekki sé hlaupið að því að fylla í skörðin.

Mikil óánægja hefur verið meðal starfsfólks Reykjalundar eftir að forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp fyrr í mánuðinum. Þá kanna Sjúkratryggingar Íslands hvort tryggt sé að starfsemi Reykjalundar geti haldið áfram með eðlilegum hætti eftir brotthvarf starfsfólks.

Fimmti læknirinn sagði upp störfum vegna óánægju með störf stjórnar SÍBS í dag en alls eru um tólf fastráðnir læknar starfandi við Reykjalund þegar er fullmannað.

Ólafur Þór Ævarsson, sem ráðinn var framkvæmdastjóri lækninga í síðustu viku, segir að uppsagnirnar hafi mikil áhrif á starfseminu en þó sé hægt að  halda henni gangandi þar sem þrír af læknunum ætli að vinna uppsagnarfrestinn. Hann segir að þegar sé farið að huga að því að ráða nýja lækna en það sé snúið þar sem á Reykjalundi sé mjög sérhæfð starfsemi. Þá þurfi að finna bráðabirgðalausnir til skemmri tíma.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi