Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimmtán varaþingmenn hafa tekið sæti á Alþingi

26.10.2019 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Níu varaþingmenn tóku sæti á Alþingi í vikunni og þess vegna voru um 14 prósent kjörinna þingmanna fjarverandi. Alls hafa fimmtán varaþingmenn tekið sæti á Alþingi síðan 150. þing var sett í haust.

Fimm af þeim níu sem tóku sæti í vikunni eru fyrir þingmenn Suðurkjördæmis. Þrír taka sæti fyrir þingmenn Norðvesturkjördæmis og einn fyrir þingmann í Norðausturkjördæmi.

Fjöldi varaþingmanna átti sér eðlilegar skýringar í vikunni en það hitti svo á að tveir fundir eru haldnir erlendis á sama tíma. Það er Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og vinnuheimsókn til Washington í Bandaríkjunum annars vegar og hins vegar fundur Vestnorræna ráðsins á Grænlandi.

Þeir þingmenn sem sækja þingið í Bandaríkjunum eru:

 • Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
 • Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
 • Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi
 • Smári McCarthy, þingmaður Pírata í Suðurkjördæmi

Þeir þingmenn sem sækja fundinn á Grænlandi eru:

 • Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi
 • Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi
 • Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
 • Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi
 • Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi suður
 • Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Þegar varaþingmenn fá tækifæri til þess að setjast á þing hafa þeir sömu tækifæri og aðrir þingmenn til þess að láta til sín taka. Sá tími sem það tækifæri gefst er hins vegar takmarkaður, enda víkja þeir þegar aðalmennirnir snúa aftur.

Varaþingmennirnir nýta tímann mismunandi í þingsalnum. Sumir eru tilbúnir með mál sem þeir mæla fyrir en aðrir beita sér öðruvísi í þingsal.

Aðrir varaþingmenn hafa ekki látið til sín taka með þingsályktunartillögum eða sem fyrstu flutningsmenn lagafrumvarpa. Sú athugun sem gerð var tók ekki til annarra flutningsmanna lagafrumvarpa eða þingsályktunartillagna á 150. þingi. Flutningsmenn eru yfirleitt fleiri en einn. Allan þingmálalistann má finna á vef Alþingis.

Aðrir varaþingmenn sem hafa tekið sæti á Alþingi í haust eru

 • Einar Kárason fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi suður
 • Jón Þór Þorvaldsson fyrir Miðflokkinn í Norðvesturkjördæmi
 • Kristín Traustadóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi
 • Bjarni Jónsson fyrir Vinstri græna í Norðvesturkjördæmi
 • Ásgerður K. Gylfadóttir fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi
 • Álfheiður Eymarsdóttir fyrir Pírata í Suðurkjördæmi

Hvenær má þingmaður kalla inn varamann?

Í lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað er fjallað um hvenær þingmenn geta kallað inn varamenn fyrir sig. Í meginatriðum eru ástæðurnar tvær. Annars vegar þegar þingmaður er fjarverandi við störf á vegum ríkisstjórnarinnar eða sem fulltrúi Alþingis eða í öðrum opinberum erindagjörðum í minnst fimm daga. Það eru þá einkum þeir þingmenn sem þurfa að sinna skyldustörfum erlendis.

Hins vegar má þingmaður kalla inn varamann fyrir sig ef hann getur ekki sinnt starfi sínu af heilsufarsástæðum. Sem stendur er Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, eini þingmaðurinn í veikindaleyfi.