Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm skip til loðnurannsókna í kvöld eða nótt

15.01.2020 - 17:05
Mynd með færslu
Árni Friðriksson RE. Mynd: Smári Geirsson/svn.is
Þess er vænst að rannsóknarskipið Árni Friðriksson haldi til loðnurannsókna frá Neskaupstað í kvöld eða nótt, ásamt fjórum uppsjávarskipum. Veðurútlit er þó ekki sérlega gott.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson kom til Neskaupstaðar í morgun og þar eru einnig í höfn grænlenska skipið Polar Amaroq og Hákon EA sem munu taka þátt í loðnuleiðangri þeim sem er að hefjast. Þá munu Bjarni Ólafsson AK og Ásgrímur Halldórsson SF einnig taka þátt í verkefninu. Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Birki Bárðarson leiðangursstjóra, um borð í Árna Friðrikssyni.

Mælar skipanna samstilltir

Birkir sagði að undirbúningsvinnu yrði sinnt í dag en hann vonaðist til að öll skipin létu úr höfn til mælinga og leitar í kvöld eða nótt. „Við þurfum að kvarða mæla í Árna Friðrikssyni og Hákoni, en mælar Polar Amaroq hafa þegar verið kvarðaðir. Í kvörðun mælanna felst að þeir séu stilltir þannig að þeir mæli allir eins. Bjarni Ólafsson og Ásgrímur Halldórsson koma með sem leitarskip en þau eru ekki með kvarðaða mæla.“ 

Þrír starfsmenn Hafró um borð í fiskiskipunum

Birkir segir því fimm skip hefja mælingar og leit í kvöld eða nótt. „Við gerum ráð fyrir að byrja út af Litladýpi og leita norður með landgrunnsbrúninni og einnig á landgrunninu. Saman munu skipin leita út af Austfjörðum og Norðausturlandi í fyrstu atrennu. Um borð í bæði Polar Amaroq og Hákoni verða þrír starfsmenn frá Hafrannsóknastofnun.“ 

Ekki sérlega gott veðurútlit

„Því miður er veðurútlit ekki sérstaklega gott en það er veðurgluggi næstu daga sem þarf að nýta vel. Því miður ríkir ekki mikil bjartsýni um loðnuvertíð en það er aldrei að vita. Loðnan hefur oft komið mönnum á óvart,“ sagði Birkir.