Fimm milljónum næstum því rænt af Frumherja

16.10.2019 - 19:59
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Snör viðbrögð komu í veg fyrir að 5 milljónum yrði rænt af Frumherja með fölskum tölvupóstum. Sterkur grunur er að Íslendingar aðstoði erlenda hakkara við glæpina segir Ragnar Sigurðsson, veikleikagreinir og netöryggissérfræðingur.

Sífellt fleiri fyrirtæki hérlendis eru fórnarlömb netglæpa. Því boðuðu Samtök verslunar og þjónustu til upplýsingafundar í morgun. Framkvæmdastjóri Frumherja hélt erindi en fyrirtækið varð nýlega fyrir slíkri árás. 

„Það berast fyrirmæli frá mér í fölsuðum tölvupósti til fjármálastjóra fyrirtækisins sem biður síðan um staðfestingu frá mér um ákveðnar upplýsingar til að geta framkvæmt greiðslu sem að ég innan gæsalappa veiti henni. Það kemur upp úr dúrnum að þetta var falskur póstur en engu að síður þá framkvæmir fjármálastjórinn greiðsluna.“ segir Orri Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja. 

Greiðslan hljóðaði upp á 5 milljónir en snör viðbrögð fjármálafulltrúans og Landsbankans gerðu það að verkum að hægt var að endurheimta greiðsluna. „Þetta var ótrúlega sannfærandi gert og svona sem dæmi þá fór þetta saman með því að ég var staddur í orlofi erlendis og sendi mína tölvupósta úr Iphone og alla vega okkar skoðun er sú að það var fylgst með mínum ferðum þar.“

Ragnar Sigurðsson segir margt vera ábótavant hjá íslenskum fyrirtækjum og ýmislegt sem þau geti gert. „Það eru svona ýmis atriði, til dæmis bara fjölþátta auðkenning á tölvupósti og vernda það að óviðkomandi komist ekki inn í tölvupóstinn og geti verið þar að vild. Svo er það náttúrulega öryggisfræðsla fyrir starfsfólk er mjög mikilvæg. Svo eru það þessar öryggisráðstafanir eins og vírusvarnir, eldveggir jafnvel bara tryggingar varðandi cyber áhættur.“

Netglæpir séu orðnir mjög þróaðir. „Þetta er bara helsta hættan í dag að starfsfólkið falli fyrir svona gildrum, annað hvort geri eitthvað eða hugsanlega opni eitthvað viðhengi og opni leið inn á vefkerfið en um 90% af öllum tölvuinnbrotum í dag hafa eitthvað að gera með starfsfólkið.“

Orri segir að þetta hafi verið mjög óþægileg reynsla. „Það var ekki nokkur vafi að þarna voru menn búnir að skoða einhverjar upplýsingar, við höfum náttúrlega starfað saman í mörg ár ég og fjármálastjóri og það var ákveðið orðalag og annað í samskiptunum sem var mjög sannfærandi sem að mínu mati bendir til þess að menn eru búnir að vinna mikla heimavinnu áður en látið er til skarar skríða.“

Ragnar segir sterkan grun um að Íslendingar aðstoði erlenda hakkara. Íslensk fyrirtæki séu sérstaklega blaut á bak við eyrun í netöryggismálum. „Við trúum bara ekki af því þetta er á svo góðri íslensku oft á tíðum að þetta geti verið landar okkar sem eru á bak við þetta en þetta er bara orðið svo flott og við þurfum bara öll að vera á varðbergi gagnvart svona hættum.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi