Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm milljarða innspýting PCC á Bakka tryggð

16.10.2019 - 11:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búið er að tryggja fimm milljarða króna fjármögnun sem PCC BakkiSilicon þarf til áframhaldandi reksturs. Þetta fullyrðir Ómar Örn Tryggvason, einn forsvarsmanna Bakkastakks. Ekki fæst uppgefið hvaðan fjármunirnir koma. Lífeyrissjóðirnir funda um aðkomu sína að fjármögnuninni í næstu viku.

Áður hefur komið fram að þýska fyrirtækið PCC SE sem á 86,5% hlutafjár í PCC á Bakka hafi óskað eftir að samlagshlutafélagið Bakkastakkur sem er í eigu lífeyrissjóða og Íslandsbanka komi að allt að fimm milljarða króna fjármögnun í samræmi við eignarhlut þeirra í kísilverinu. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Lífeyrissjóðirnir ætli ekki að koma með frekara fjármagn inn í rekstur kísilversins á þessari stundu.

Í samtali við fréttastofu segir Ómar Örn Tryggvason, einn forsvarsmanna Bakkastakks sem á 13,5% hlut í kísilverinu engar ákvarðanir hafa verið teknar um aðkomu að fjármögnuninni. Það verði fundur hjá félaginu í næstu viku þar sem farið verði yfir málin. Á honum verði engar ákvarðanir teknar en búast megi við því að ákvörðun liggi fyrir næstu mánaðamót. Hann tekur fram að búið sé að tryggja fjármögnunina, það eigi bara eftir að ákveða hvort eða hvernig lífeyrissjóðirnir komi að henni. Hann vill ekki gefa upp hvaðan peningarnir koma.

Edda Hermannsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka segir málið ennþá í skoðun hjá bankanum. Viðræður standi yfir og niðurstöður ættu að liggja fyrir á næstu vikum. 

Erfiðlega hefur gengið að koma verksmiðjunni í full afköst vegna endurtekinna bilana meðal annars í rykhreinsibúnaði. Óstöðugur rekstur og lágt heimsmarkaðsverð á kísilmálmi eru helstu ástæður þess að félagið þurfti að leita að allt að fimm milljarða króna fjármögnun til að styrkja reksturinn. Í samtali við fréttastofu í byrjun mánaðar sagðist Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC, vera viss um að fjármögnun myndi nást en það myndi skýrast á næstu vikum. Ekki náðist í Rúnar við vinnslu þessarar fréttar.