Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fimm látin í eldgosi, óvíst um þrjátíu

09.12.2019 - 03:34
Mynd: AP / New Zealand Herald
Fimm eru látin af völdum eldgoss á White-eyju á Nýja Sjálandi. Óvíst er um afdrif þeirra sem enn eru á eyjunni. Gos hófst þar skyndilega um klukkan tvö eftir hádegi að staðartíma. Um fimmtíu ferðamenn voru á eyjunni þegar eldsumbrotin hófust, að því er talið er.

Búið er að koma 23 af eyjunni, en nærri 30 til viðbótar eru eftir. Lögregla segir óvíst um afdrif allra á eyjunni. Unnið er að því að fá staðfestan fjölda þeirra sem voru á eyjunni þegar gosið hófst.  Lögreglan greindi frá því á blaðamannafundi að enn sem komið er sé of hættulegt að hefja björgunaraðgerðir á eyjunni.

Að sögn jarðvísindamannsins Ken Glairdhill er gosið ekki stórt. Hann lýsti því þannig að fjallið væri að ræskja sig.

White Island er um fimmtíu kílómetrum frá landi og vinsæll ferðamannastaður. Um tíu þúsund sækja eyjuna heim á ári hverju til að virða eldfjallið fyrir sér. Eldfjallið er eitt það virkasta á Nýja Sjálandi, og gaus síðast árið 2016. Það sama ár var gámur fluttur á eyjuna sem hægt er að nota sem neyðarskýli í eldsumbroti.

Bandaríkjamaðurinn Michael Schade var nýfarinn af eyjunni þegar gosið hófst. Hann var að sigla yfir til meginlands Nýja Sjálands og náði myndum af gosinu sem hann deilir á Twitter.

Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV