Fimm grunuð um umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimm-menningarnir sem voru handteknir í og við Hvalfjarðargöngin á laugardag eru grunaðir um umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu. Þeir eru allir nema einn erlendir ríkisborgarar og hafa allir komið við sögu lögreglunnar áður. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í húsleit á að minnsta kosti sjö stöðum í tengslum við rannsókn málsins. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn.

Fólkið, fjórir karlar og ein kona, var handtekið í aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Vesturlandi. 

Fólkið var á tveimur bílum og var annar stöðvaður í Hvalfjarðargöngunum en hinn við norðurenda þeirra. Lögreglan fór á vettvang eftir að tilkynning barst um grunsamlegar mannaferðir.

Fram kom í tilkynningu lögreglunnar að lagt hefði verið hald á mikið magn fíkniefna og að málið teldist að mestu upplýst.

Fólkið var síðan leitt fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem það var úrskurðað í tveggja vikna gæsluvarðhald eða til 13. mars.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi