Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fimm flokkar bjóða fram í sameinuðu sveitarfélagi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Að minnsta kosti fimm flokkar ætla að bjóða fram í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar eystra, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Framboðsfrestur rennur út eftir rúman mánuð.

Enginn er búinn að skila framboði formlega inn til kjörstjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að birta sinn lista. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, leiðir hann. Efstu fjögur sætin eru skipuð fulltrúum úr öllum sveitarfélögum. Þar með oddvita Borgarfjarðarhrepps þar sem hefur til þessa verið persónukjör.

Auk Sjálfstæðisflokksins ætla Miðflokkurinn, Framsókn, Vinstri græn og Austurlistinn að bjóða fram. Flokkarnir hafa ekki birt framboðslista sína opinberlega. Austurlistinn er samtök félagshyggjufólks í nýju sveitarfélagi. Með Austurlistanum sameinast Héraðslistinn og Seyðisfjarðarlistinn sem buðu fram í síðustu kosningum. Þá hefur Á-listinn auglýst aðalfund í næstu viku þar sem næstu skref verða ákveðin. Hann bauð ekki fram í síðustu kosningum.

Fimm vikur til stefnu

Framboðsfrestur rennur út á hádegi laugardaginn 28. mars. Kosið verður til sveitarstjórnar 18. apríl, á miðju hefðbundnu kjörtímabili. Ný sveitarstjórn er því aðeins til tveggja ára og því má leiða líkur að því að það sé efst á málefnaskrá hjá flestum að leiða sameininguna til lykta.