Fimm fjölbreyttar myndir í sóttkví

Mynd: 20th Century Fox / 20th Century Fox

Fimm fjölbreyttar myndir í sóttkví

19.03.2020 - 08:08

Höfundar

Í hverri viku mælir Magnús Þorsteinn Magnússon, sérlegur kvikmyndasérfræðingur Síðdegisútvarpsins, með fimm kvikmyndum til að horfa á í sóttkví. Hann reyndi að hafa valið í þessari fyrstu viku nokkuð fjölbreytt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Magnús segir að það séu þó nokkrar myndir sem hann ráði fólki frá að horfa á um þessar mundir. Það eru myndir eins og Outbreak, Contagious og aðrar veirumyndir. Myndirnar sem Magnús mælir með í þessari viku komu strax upp í hugann þegar að hann fékk það verkefni að mæla með fimm myndum.

1. The Princess Bride - 1987

„Fyrsta myndin er fyrir alla fjölskylduna. Ef þið eruð ekki búin að sjá þessa mynd mæli ég eindregið með að þið grafið hana upp ekki seinna en strax. Þetta er fyrsta klassa ævintýramynd.”

Magnús segir að enginn ætti að hafa áhyggjur þrátt fyrir að myndin sé frá árinu 1987, hún eldist vel og gerist auk þess á miðöldum og því engin hætta á að níundi áratugurinn sé of áberandi í myndinni.

2. The Shawshank Redemption - 1994

Þessi kvikmynd er kannski ekki fyrir alla fjölskylduna en allir ættu þó að kannast við hana, myndin hefur margoft verið valin besta mynd allra tíma og skartar stórleikurum í öllum hlutverkum. 

„Æðisleg mynd, ég held mikið upp á hana,” segir Magnús.

3. Sound of Music / Wizard of Oz / Singing in the Rain / My Fair Lady

„Við getum ekki farið í gegnum svona án þess að horfa á eina dans- og söngvamynd. Það er algjört skilyrði,” segir Magnús um næsta val en þar nefnir hann fjórar kvikmyndir sem allar eru söngvamyndir.  

„Allt æðsilegar myndir með fullt af frábærri tónlist. Það er ekkert skemmtilegra en að horfa á bíómynd og svo brestur fólk í söng og dans.”

4. Back to the Future - 1985

„Ég verð að vera með Back to the Future. Ég veit ekki hvað ég er búinn að sjá hana oft og hún stendur alltaf fyrir sínu. Það er með þetta tímaflakk, það klikkar ekki,” segir Magnús um fjórðu myndina.

5. The Godfather - 1972

„Ég nefni hana nú bara vegna þess að hún er svo góð mynd. Ég veit ekki hversu oft ég hef gómað sjálfan mig á því að flakka á milli stöðva og dett á þessa mynd. Ég á kannski morgunvakt daginn eftir og ég segi við sjálfan mig að ég geti ekki haldið áfram, maður dettur inn í hana þegar það er klukkutími búinn af henni, einn og hálfur búinn af henni. En maður heldur áfram að horfa og horfir til enda. Það er vegna þess að þetta er svo góð bíómynd,“ segir Magnús að lokum. 

Rætt var við Magnús Þorstein í Síðdegisútvarpinu á Rás 2