Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fimm ár frá hryðjuverkalögum

09.10.2013 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm ár eru í dag frá því Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, gagnrýndi íslensk stjórnvöld harðlega í sjónvarpsviðtali. Daginn áður voru hryðjuverkalög notuð til að frysta eignir íslenskra banka í Bretlandi. Breskur hagfræðingur segir að frekar hefði átt að hjálpa vinaþjóð.

Brown sagði í viðtali við Sky News að lagabeitingin væri réttmæt. Gæta yrði hagsmuna innstæðueigenda í Bretlandi þegar fé væri að hverfa úr íslensku bönkunum. „Ég tel þeim bera skylda til að standa við skuldbindingar gagnvart breskum þegnum sem hafa fjárfest í íslenskum bönkum,“ sagði Brown. 

Breski hagfræðingurinn Eamon Butler er framkvæmdastjóri Adam Smith hugveitunnar. Hann segir að Bretar hefðu átt að hjálpa vinaþjóð en ekki ráðast á hana. „Ríkisstjórn Browns horfði á banka hrynja allt umhverfis og stjórn hans þurfti að koma bönkum og öðrum fyrirtækjum til bjargar. Þeir höfðu ekki hugmynd um til hvaða ráðas skyldi gripið. Svo viðbrögðin urðu svona. Þeir voru sem smádýr fangað í ljósum hraðskreiðrar bifreiðar,“ segir Butler. 

Butler átti sjálfur fé á Icesave reikningi. „Ég þurfti að standa skil á sköttum eftir hálft ár svo ég skoðaði innlánsvexti og Icesave bauð betur. Ég hugsaði sem svo að þetta væri lyginni líkast og hringdi í íslenskan vin minn og spurði hvort þessi banki væri í lagi. Hann sagði svo vera; að frændi hans stjórnaði honum en ég taldi ólíklegt að hann færi á hausinn á næstu sex mánuðum svo ég lagði féð mitt inn og veðjaði þar með á hann.“

FImm og hálfum mánuði síðar fór bankinn á hausinn og Butler taldi féð glatað. „En Alistair Darling fjármálaráðherra skrifaði ávísun fyrir allri upphæðinni auk fullrar ávöxtunar sem ég hefði fengið hefði bankinn ekki farið á hausinn. Og það eru breskir skattgreiðendur sem borga. Af hverju skyldi byggingaverkamaður í Bradford borga hærri skatta til að bjarga náunga eins og mér sem meðvitað veðjaði á að þessi banki starfaði áfram?“