Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm ár frá eldgosinu í Holuhrauni

29.08.2019 - 08:06
Mynd: Einar Rafnsson / RÚV
Í dag eru fimm ár frá upphafi eldgosanna í Holuhrauni. Eldgosin hófust aðfaranótt 29. ágúst 2014 og stóðu í næstum hálft ár. Frá þeim kom mesta hraun frá Skaftáreldum og er það með stærri hraungosum á Íslandi á sögulegum tíma.

Atburðarásin sem leiddi til eldgossins í Holuhrauni hófst með jarðskjálftahrinu í Bárðabungu um miðjan ágúst 2014. Hundruð skjálfta voru skráðir á hverjum sólarhring og sá stærsti varð 26. ágúst, 5,7 að stærð. Þann 29. ágúst hófst svo hraungos í Holuhrauni. Þrátt fyrir að það hafi einungis staðið í fáa klukkutíma var það forboði frekari tíðinda.

Aðfaranótt 31. ágúst hófst svo mun stærra gos í Holuhrauni. Í myndskeiðinu hér að ofan má heyra fréttatíma fréttastofu RÚV í útvarpi þann dag. Gosið náði hámarki á fyrsta degi en þá gaus úr rúmlega 1.500 metra langri gossprungu. Kvikustrókar risu í um fimmtíu til hundrað metra hæð þegar mest gekk á. Skilgreind goslok voru svo 28. febrúar 2015, um hálfu ári síðar.

Hraunið sem myndaðist í gosinu er um fjörutíu metrar að þykkt þar sem það rís hæst. Meðalþykkt hraunsins er um tíu til fjórtán metrar og þekur það um 85 ferkílómetra lands. Rúmmál hraunsins er um 1,4 rúmkílómetrar.

Mynd: Einar Rafnsson / RÚV
Sjónvarpsfréttir 31. ágúst 2014.

Í riti Veðurstofu Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands um áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu kemur fram að gosið hafi í eðli sínu verið sambærilegt að gerð og Skaftáreldar 1783 til 1784 sem ollu móðuharðindunum.

Víðtækari loftmengunar af völdum eldfjallagass hafi ekki orðið vart hérlendis síðan í Skaftáreldum. Eldfjallagastegundir bárust víða frá gosinu í Holuhrauni og mældist styrkur hár víða um land á gostímanum. 

Áhrif eldgossins á eðlis- og efnafræðilega eiginleika umhverfisins voru talsverð og mun meiri en marga hafði grunað. Eldfjallagas hafði mælanleg áhrif á umhverfisaðstæður hérlendis þrátt fyrir að atburðurinn hafi átt sér stað á hálendi Íslands. Bæði staðsetning og tímasetning gossins hafi án vafa lágmarkað neikvæð áhrif eldfjallagassins á umhverfi og heilsu.