Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fimm alvarlega slasaðir eftir flugslys

09.06.2019 - 21:44
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Flugslys varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð á Suðurlandi um klukkan hálf níu í kvöld. Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli sagði í samtali við fréttastofu að slys hefðu orðið á fólki en ekki væri unnt að greina frá því hve margir slösuðust eða hve alvarlega.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi sem birt var rétt í þessu á Facebook er greint frá því að fimm hafi verið um borð í flugvélinni og allir séu alvarlega slasaðir. Þegar tilkynning barst lögreglu um slysið var eldur laus í flugvélinni. Fjölmennt lið lögreglu slökkviliðs og sjúkraflutninga HSU var sent á staðinn, auk tveggja þyrla Landhelgisgæslunnar.

Rannsóknardeild Lögreglustjórans á Suðurlandi fer með rannsókn slyssins og nýtur aðstoðar Rannsóknarnefndar samgönguslysa og tæknideildar Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðsteymi Rauða krossins var einnig sent á vettvang til að veita vitnum að slysinu sálrænan stuðning.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi að Landhelgisgæslan hefði fengið tilkynningu um málið upp úr hálf níu í kvöld og tvær þyrlur, TF-LIF og TF-EIR, verið sendar á vettvang.

Fréttin verður uppfærð.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV