Fimm á spítala eftir flugeldaslys

01.01.2018 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Mikill erill hefur verið á slysadeild Landspítalans í nótt. Fimm komu á spítalann vegna flugeldaslysa en mun fleiri slys urðu vegna ölvunar og hálku, segir Bergur Stefánsson, sérfræðingur á slysadeild og bráðamóttöku Landspítalans. Nokkrir af þeim hlutu handleggs- eða fótbrot.

Bergur segir að nokkuð hafi verið um að skotkökur hafi oltið á hliðina og þannig skotið flugeldum á fólk sem fylgdist með. Enginn hafi hlotið alvarlegan augnáverka. Ungt barn hafi slasast á hendi. Bergur segir það ánægjulegt að engin slys hafi orðið vegna fikts eða tilraunastarfsemi með flugelda.