Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fíkniefnin í niðursuðudósum og gaskútum

14.09.2015 - 16:37
Mynd: Rúv.is / skjáskot
Hollenski maðurinn, sem var handtekinn í síðustu viku með mikið magn af fíkniefnum í húsbíl í Norrænu, hefur játað að hafa vitað af fíkniefnunum. Hann staðhæfir hins vegar að konan hans hafi ekkert vitað. Fíkniefnin voru falin í niðursuðudósum, tveimur gaskútum og varadekki bílsins.

Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Austurlands frá því í síðustu viku en hann var birtur á vef Hæstaréttar í dag. Parið var úrskurðað í gæsluvarðhald daginn eftir að fíkniefnin fundust - konan kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem staðfesti hann í dag.

Í greinargerð lögreglustjórans á Austurlandi, sem lögð var fyrir héraðsdóminn kemur fram að lögreglan telji parið hafa reynt að smygla 81,2 kílóum af MDMA-efnum. Þetta sé stórfelldur innflutningur á fíkniefnum sem geti varðað allt að tólf ára fangelsi. Vonast sé til að hægt verði að gefa út ákæru í málinu eins fljótt og mögulegt verður.

Lögreglustjórinn segir enn fremur að viðamikil lögreglurannsókn sé farin af stað sem taki tíma en farið var fram á 4 vikna gæsluvarðhald yfir þeim báðum. 

Í greinargerðinni segir enn fremur að í 14 niðursuðudósum hafi fundist 11,2 kíló af óþynntu MDMA- efni. Í greinargerð lögreglustjórans á Austurlandi segir að miðað við þyngd varadekks húsbílsins og tveggja gaskúta sem fundust í bílnum megi áætla að í þeim geti verið falin 70 kíló af ætluðum fíkniefnum. 

TÍMALÍNA
09:00 - Norræna kemur að landi í Seyðisferði
10:00 - Tollverðir taka húsbíl hollenska parsins í úrtaksleit.
13:25 - Grunur vaknar um að fíkniefni séu falin í bílnum og hollenska konan því handtekin
13:30 - hollenski maðurinn handtekinn skömmu seinna.

Í greinargerð lögreglustjórans segir enn fremur að maðurinn hafi játað að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna. Eiginkona hans hafi neitað og maðurinn staðhæfi að hún hafi ekki vitað um fíkniefnin.

Athygli vekur að tollverðir tóku húsbílinn í úrtaksleit klukkan tíu um morgunin - klukkutíma eftir að Norræna lagðist að bryggju. Þremur og hálfum tíma síðar eða 13:25 var konan handtekin og fimm mínútum síðar maðurinn.

Lögreglustjórinn á Austurlandi segir í greinargerð sinni að vegna hins mikla magns af fíkniefnum og „að því er virðist mikla styrkleika þeirra, krefjist almannahagsmunir að konan verði vistuð í varðhaldi.“