FIFA vantar 130 milljarða til að halda HM félagsliða

Mynd með færslu
 Mynd:

FIFA vantar 130 milljarða til að halda HM félagsliða

25.02.2020 - 15:28
Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur leitað til bandarísks fjárfestingafélags, Raine Group, til að fjármagna HM félagsliða sumarið 2021. Fjármögnun mótsins gengur illa og fleiri ljón eru á veginum.

Milljarð bandaríkjadala, 130 milljarða króna, þarf til að fjármagna mótið sem verður haldið í Kína sumarið 2021. Mótið verður með nýju fyrirkomulagi og keppa þar 24 félagslið frá öllum álfusamböndum FIFA. Hið nýja mót kemur í stað Álfukeppninnar og verður haldið á fjögurra ára fresti.

Mótið er hugarfóstur Gianni Infantino, forseta FIFA, en breytingin á mótinu hefur mætt mikilli mótstöðu víða og hefur Infantino fórnað ýmsu til að koma því á koppinn.

Fjármögnun í desember mistókst

Í desember bauð FIFA út fjármögnun mótsins og leitað að samstarfsaðilum. Samningurinn við Raine Group núna bendir til þess að illa hafi gengið að fjármagna mótið. 

Stór hluti fjárins er ætlaður til að tryggja þátttöku bestu liða Evrópu. Þau vilja njóta sérkjara á mótinu og í raun verða meðeigendur þess. Í síðasta mánuði gengu fulltrúar stærstu liða Evrópu á fund FIFA. Tilgangurinn var að tryggja að mótið yrði í raun samvinnuverkefni FIFA og Evrópusamtaka fótboltafélaga og evrópsk lið myndu njóta aukinna tekna umfram lið frá öðrum heimsáflum. Ennfremur vilja Evrópusamtökin að 12 lið frá Evrópu keppi á mótinu í stað þeirra 8 sem fyrirhugað er að taki þátt.

FIFA og Infantino hafa sagst ætla að nota hagnaðinn af HM félagsliða til að styrkja innviði fótbolta á viðkvæmari svæðum heimsins. Stærstu félagslið Evrópu vilja hins vegar fá það stóra sneið af kökunni að slíkt yrði erfitt. Þau vilja í raun að módelið verði svipað Meistaradeildinni þar sem yfir 90% tekna eru greiddar út sem verðlauna- og þátttökufé til liðanna.

Hefur reynt á samtarf FIFA og UEFA

Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir FIFA að vinna mótinu brautargengi. Aleksander Ceferin, forseti Knattspyrnusambands Evrópu UEFA, hefur lagst gegn því og hið sama gerðu stærstu deildir og félagslið heims.

FIFA vill að HM félagsliða verði með tíð og tíma viðburður á borð við HM landsliða en það myndi ógna Meistaradeild Evrópu sem tekjuhæsta og vinsælasta félagsliðamót heims. UEFA hefur því lagt til að það yrðu ekki félög úr Meistaradeildinni sem kepptu á HM félagsliða heldur félög úr Evrópudeildinni.

Infantino mistókst að ná samkomulagi um mótið árið 2018 vegna mótstöðu Ceferin auk þess sem innanhúsathugun FIFA dró í efa líkindi þess að ná að fjármagna mótið á þeim tíma.

Þá hefur Infantino einnig lent upp á kant við Alejandro Dominguez, forseta Knattspyrnusambands Suður-Ameríku. Þeir hafa lengi verið nánir en slest hefur upp á vinskapinn vegna HM félagsliða. 

Í anda hinnar gömul speki að óvinur óvinar þíns sé vinur þinn hafa Ceferin og Dominguez bundist böndum og ætla að vinna að sameiginlegum verkefnum milli Evrópu og Suður-Ameríku.

Engar líkur eru þó taldar á að hætt verði við umbyltingu HM félagsliða. Mótið mun fara fram næsta sumar í Kína. Samstarf FIFA við Raine Group mun koma með peninga inn í mótið. Raine Group hefur mikla reynslu af fjármögnun íþróttaviðburða og -félaga. HM félagsliða verður þó líklega seint óumdeilt mót.