FH í annað sætið eftir stórsigur á ÍR

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

FH í annað sætið eftir stórsigur á ÍR

16.02.2020 - 21:00
FH vann öruggan ellefu marka sigur á ÍR í toppslag í Olís-deild karla í handbolta í dag. Sigurinn kom liðinu upp í annað sæti deildarinnar.

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leik kvöldsins og gátu komist stigi frá toppsæti deildarinnar með sigri. Leikurinn var jafn í upphafi en staðan var 5-5 eftir tíu mínútna leik. Í kjölfarið skoraði FH fimm mörk í röð og eftir það skildu leiðir.

FH leiddi með níu marka mun í hálfleik og sigur þeirra var aldrei í hættu í síðari hálfleiknum. Hafnfirðingar náðu mest 13 marka forystu en unnu að lokum með ellefu marka mun í miklum markaleik, 39-28.

Sigurinn skilar FH upp fyrir Val í annað sæti deildarinnar en liðin eru jöfn að stigum með 24 stig, aðeins stigi frá toppliði Hauka sem tapaði fyrir ÍBV fyrr í dag. ÍR er í fimmta sæti jafnrar deildarinnar með 22 stig, líkt og ÍBV sem er sæti neðar.

Ásbjörn Friðriksson og Einar Rafn Eiðsson voru markahæstir FH-inga með sjö mörk hvor en Hafþór Már Vignisson skoraði sex mörk fyrir ÍR.

Staðan í deildinni

1 Haukar 18 +15 25
2 FH 18 +42 24
3 Valur 17 +56 24
4 Afturelding 17 +18 23
5 ÍR 18 +40 22
6 ÍBV 18 +35 22
7 Selfoss 17 +7 21
8 Stjarnan 18 -5 17
9 Fram 18 -28 12
10 KA 18 -46 11
11 HK 18 -68 6
12 Fjölnir 17 -66 5