Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fernandez nýr forseti Argentínu

28.10.2019 - 01:36
epa07947845 The candidate for the Presidency of Argentina, the Peronist opposition Alberto Fernandez, greets his supporters during the closing ceremony of his campaign, in Mar del Plata, Argentina, 24 October 2019. Argentina will hold its general election on 27 October 2019.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Alberto Fernandez verður næsti forseti Argentínu eftir öruggan sigur í fyrstu umferð forsetakosninganna í gær. Hann hlaut nærri 48 prósent atkvæða þegar talningu var við það að ljúka, sem er vel yfir þeim 45 prósentum sem þarf til að ná kjöri í fyrstu umferð. Fráfarandi forseti, Mauricio Macri, kom næstur með um 40,5 prósent. Fyrrverandi forsetinn Christina Kirchner verður varaforseti Fernandez. 

Þúsundir stuðningsmanna hylltu Fernandez fyrir utan höfuðstöðvar flokks hans í Buenos Aires. Sigurreifur sagði Fernandez þetta vera frábæran dag fyrir Argentínu. Macri sagði sínum stuðningsmönnum að hann hafi hringt í Fernandez og boðioð honum í morgunmat á forsetaskrifstofunni til þess að embættisskiptin gangi sem best fyrir sig. Macri situr þó næsta rúma mánuðinn í embætti, en Fernandez tekur við 10. desember.

Kjörsókn var nokkuð góð, eða rúmlega 80 prósent. Macri kallaði eftir mikilli kjörsókn, sem sérfræðingar töldu vera hans einu von í baráttunni við Fernandez. Undir stjórn Macris hefur efnahagur Argentínu hrunið. 

Varaforsetinn Kirchner var forseti á milli áranna 2007 og 2015, eftir að hún tók við embætti af eiginmanni sínum, Nestor Kirchner. Macri kennir stjórn þeirra um hvernig fór fyrir efnahagnum í stjórnartíð hans. 

Markaðir skjálfa

Endurkoma vinstri stjórnar til valda í landinu olli skjálfta á mörkuðum, og féll pesóinn um nærri sex prósent í aðdraganda kosninganna. Eftir sigur Fernandez í forkosningum í ágúst hafa sparifjáreigendur tekið jafnvirði um tólf milljarða bandaríkjadala af reikningum sínum. 

Rúmlega þriðjungur íbúa Argentínu lifa undir fátæktarmörkum. Verðbólga er í kringum 38 prósent, og gengi pesóans hefur hrunið um 70 prósent frá ársbyrjun.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV