Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðaþjónustan hefur staðið af sér hrun og eldgos

18.03.2020 - 19:27
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Afbókunum rignir nú yfir hótel og gististaði sem hafa sum brugðið á það ráð að loka. Viðbúið er að starfsfólki verði sagt upp. Formaður félags fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu segir að ferðaþjónustan hafi staðið af sér hamfarir og áföll.

Vegna samkomubanns hér á landi og lokunar landamæra víða um heim vegna kórónaveirufaraldursins hefur ferðamönnum fækkað verulega síðustu daga og vikur. Gististaðir og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu finna mjög fyrir samdrættinum og leita leiða til að halda áfram rekstri. Sum þeirra hafa neyðst til að loka. Þeirra á meðal eru Center hotels í Reykjavík.

„Við erum með sjö hótel hérna í miðborginni og erum búin að loka fimm, eða erum að loka þeim í dag og næstu tvo-þrjá daga, þannig að eftir standa tvö hótel,“  segir Kristófer Oliversson, eigandi Center hotels.

Uppsagnir í aðsigi en framkvæmdum ekki frestað

Kristófer segir viðbúið að um þrjátíu manns missi vinnuna hjá hótelinu vegna lokana, en um 300 manns vinna þar. Hann vonast þó til að hægt verði að ráða fólkið aftur þegar áhrif veirunnar hafa gengið yfir efnahagslífið. 
 

En hvað með framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar varðandi hótelbyggingar. Eru þær settar á ís eða halda þær áfram? 

„Nú veit ég ekki hvernig það er yfir línuna, en í okkar tilfelli, við erum á lokasprettinum að klára hótelbyggingu úti á Granda. Ég vona að það verði ekki neinar truflanir á því, eða ég tel ekki að það verði. Við munum vonandi opna það í júnímánuði með nýjum gestum,“ segir Kristófer.

Hann segir ferðaþjónustuna hafa staðið af sér ýmiss áföll í gegnum tíðina og margir séu reynslunni ríkari.

„Ferðaþjónustan mun náttúrulega ekki lognast út af. Það sem er munurinn núna, við eru mmargir sem eru í rekstri sem hafa farið í gegnum hrun og  eldgos og ýmis áföll. Núna standa allir saman ákveðnir í að leysa þetta stýrt af stjórnvöldum, banki, seðlabanki, stafsfólk, allir sem að þessu koma. Þeir eru ákveðnir í að leysa þetta og þá held ég að menn komist í gegnum þetta,“ segir Kristófer.