Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferðamönnum fjölgar, hjöðnun í þjónustu

11.07.2017 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: Elding
Hlutfallsleg fjölgun ferðamanna fyrstu fjóra mánuði þessa árs var ríflega tvöfalt meiri hér á landi en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu. Framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækis segir það ekki skila sér þangað og býst við að starfsfólk verði færra næsta vetur en þann síðasta.

Evrópska ferðamálaráðið gefur út skýrslu ársfjórðungslega um komu ferðamanna og fjallar nýjasta skýrslan um fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Aukningin er langmest hlutfallslega á Íslandi, 55,7%. Næst á eftir kemur Svartfjallaland með 25,1% aukningu og þar á eftir Malta með tæp 23%. Síðan koma Finnland, Kýpur, Búlgaría, Portúgal, Serbía og Króatía. Ferðamönnum fjölgar í öllum Evrópulöndum nema Tyrklandi.

Í skýrslunni kemur fram að engin merki séu um að það sé verið að draga úr vextinum. Vöxturinn hafi verið 25% á ári að jafnaði síðustu fimm árin. Þó sé búist við að það hægist á vextinum um mitt ár þar sem farið sé að reyna á bæði fjölda gistirýma og innviði.

Þessar tölur segja þó ekki alla söguna. Þessi aukning hefur ekki skilað sér að öllu leyti í þá afþreyingu sem boðið er upp á og hvalaskoðunarfyrirtækin hafa meðal annars fundið fyrir því, meðal annars Elding. „Við áttum góðan janúar og febrúar  en síðan hefur þetta verið niður á við. Þetta hefur aðeins hjarnað við í júlí og við erum að horfa á ágætis bókanir og gang hér á bryggjunni í júlí, en maí og júní voru mjög slakir, sérstaklega maí,“ segir Rannveig Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Eldingar.

Svipaða sögu er að segja úr hótelrekstrinum. Þeir sem fréttastofa hafa rætt við þar hafa orðið varir við að dregið hafi úr bókunum, og fólk í staðinn fært sig í ódýrari gistingu.

Rannveig segir að ekki sé mikið bókað fram í tímann. Hún sér þó ekki fram á aukningu þar sem ljóst sé að ferðamenn dvelji hér í styttri tíma. „Fleiri farþegar segir okkur ekki neitt, þeir þurfa auðvita að hafa efni á að gera eitthvað hérna. Svo ég held að við séum að horfa á smá hjöðnun, vonandi ekki mikla fækkun. Við erum öll í svolítilli tiltekt og endurskoðun, hvað við þurfum að hafa af fólki miðað við hvernig við höldum að veturinn líti út. Líklega verður eitthvað færra af starfsfólki heldur en í fyrravetur. Svo við erum í naflaskoðun í augnablikinu ásamt fleiri fyrirtækjum, veit ég.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV