Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ferðamönnum fjölgaði í öllum mánuðum ársins

15.02.2016 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
1,3 milljónir ferðamanna komu hingað til lands í fyrra um flugvelli landsins og með ferjunni Norrænu. Aukningin nemur nærri þriðjungi frá árinu áður. Ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fjölgaði í öllum mánuðum ársins.

Aukningin var hlutfallslega mest í október, tæp fimmtíu prósent, og tæp fjörtíu prósent í september. Árstíðasveiflan fer því minnkandi samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Bretar skera sig úr í þeim efnum en rúmlega helmingur þeirra kom yfir vetrartímann. Bretar og Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir en nærri 500 þúsund Bretar og Bandaríkjamenn komu hingað um Keflavíkurflugvöll í fyrra. Þar á eftir eru Þjóðverjar, rúmlega hundrað þúsund og Frakkar, tæp 66 þúsund.  

Fjöldamet voru slegin í öllum mánuðum ársins á Keflavíkurflugvelli. Ferðamönnum fjölgaði um 30% átta mánuði ársins. Hún var hlutfallslega mest í október en þá fjölgaði ferðamönnum um 49,3%. 

Fjöldi ferðamanna um Seyðisfjörð, Keflavíkurflugvöll og aðra flugvelli var um 1,3 milljónir árið 2015. Þar fyrir utan eru farþegar með skemmtiferðaskipum sem komu til Reykjavíkur rúmlega hundrað þúsund. Um 96% skemmtiferðaskipa sem koma til landsins hafa viðkomu í Reykjavík.