Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðamenn vilja komast niður í Stuðlagil

04.07.2019 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stuðlagil á Efra-Jökuldal hefur slegið í gegn hjá ferðamönnum sem margir sjá þó aðeins hluta af fegurð staðarins. Enn á eftir að auðvelda aðgengi að ánni að sunnanverðu en þar er hægt að komast niður í sjálft gilið.

Við bæinn Grund á Jökuldal er hafin uppbygging á aðstöðu fyrir ferðamenn sem farnir voru að streyma niður að bakka Jökulsár á Dal. Styrkir fengust úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir bílastæði, skiltum og köðlum með fram brattri slóð. Þegar þangað er komið sést niður í Stuðlagilið þar sem gefur að líta fjölbreytt stuðlaberg. Staðurinn er ekki fyrir lofthrædda því þar slúta gróðurbakkar fram af þverhnípi. Vel sést út gilið frá þessum stað en marga langar að sjá betur inn í gilið þar sem háir stuðlaveggir ganga niður í ánna.

5 kílómetra gangur að gilinu að sunnanverðu

Til að komast þangað niður þarf að fara að gilinu hinum megin frá. Fara yfir ána um brú við Klaustursel en þar er einmitt verið smíða nýja í sumar. Síðan er 5 kílómetra gangur að Stuðlagili eftir slóða sem aðeins er ætlaður vinnuvélum. Þar hittum við ferðamann sem hafði farið niður í gilið því honum fannst hann ekki sjá það nógu vel af hinum bakkanum þar sem aðstaðan hefur verið byggð upp. „Munurinn er sá að hér getur þú farið niður í gilið þá færðu allt annað sjónarhorn sem er að mínu mati mun betra. Þú getur farið frá brúninni og beint niður í gilið og sérð það frá vatnsborðinu sem er virkilega magnað. Basaltstuðlar beint niður í tært blátt vatnið er ótrúlegt að sjá,“ segir Harper McGath frá Bandaríkjunum.

Gönguleiðin styttist um helming

Landsnet ætlar að byggja upp hluta slóðans sem hann þurfti að ganga en við það styttist gönguleiðin um helming og jafnvel meira ef slóðinn yrði byggður upp lengra. Á þessari leið má sjá hinn magnaða Stuðlafoss og Aðalsteinn Jónsson, ferðaþjónustubóndi á Jökuldal, hefur áhuga á að opna allt svæðið sunnan við á betur fyrir fólki. „Ég sé fyrir mér möguleika á að setja hérna rennu í ánna sem er fær öllum bílum og síðan verði löguð hérna gönguleið upp að fossinum. Þetta er mjög sérstakur foss,“ segir Aðalsteinn en hann er fyrrum eigandi Klaustursels. Sonur hans tók við búskap í Klausturseli en hann rekur sjálfur ferðaþjónustu á Skjöldólfsstöðum. 

Fara þurfi varlega í mannvirkjagerð

Þá væri líka hægt að merkja gönguleið inn Eyvindarárgil sem geymir leyndar perlur og fossa. Aðalsteinn segir að talsverður fjöldi sé þegar farinn að rölta í Stuðlagil að sunnanverðu og vill að farið verði varlega í að reisa mannvirki við gilið sem gætu spillt upplifun og ásýnd fyrir þeim sem fara þangað niður. „Ég er búinn að hafa þessa náttúruperlu fyrir augunum í yfir sex áratugi og hef svo sem alltaf vitað um gildi svæðisins. Mér finnst bara að það þurfi að koma óháðir aðilar að til þess að meta hvernig skynsamlegast er að standa að uppbyggingu og sýningu á stað sem þessum. Endanlegt skipulagsvald er síðan í höndum sveitarfélags,“ segir Aðalsteinn.

Allir velkomnir en þurfa að ganga á staðinn í bili

Eftir að vatn sem áður rann um Jöklu var virkjað í Kárahnjúkavirkjun og veitt yfir í Fljótsdal lækkaði vatnsborð árinnar. Við það komu fleiri stuðlar í ljós og stuðlagólf neðst í gilinu. Það breytist þegar Hálslón fer á yfirfall síðsumars en þá hækkar í ánni. „Það eru allir velkomnir að skoða þessar náttúrperlur en það er ósk landeigenda að á meðan þessi nýja brú er ekki komin í gagnið og ekki búið að laga veginn að þetta sé einungis gönguleið og ég vonast til þess að ferðamenn virði við langeiganda þá ósk en endurtek að það eru allir velkomnir,“ segir Aðalsteinn.

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV