Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ferðamenn stytta Íslandsdvölina

23.04.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Vísbendingar eru um að erlendir ferðamenn séu að stytta dvöl sína á Íslandi. Kristján Sigurjónsson, ritstjóri vefsíðunnar turisti.is og sérfræðingur í ferðamálum, telur styrkingu krónunnar helsta orsakavaldinn. Þá sé ferðamannaflóran á Íslandi mögulega að breytast líka.

Samkvæmt samantekt turista.is, sem byggir á tölum Hagstofunnar yfir gistinætur erlendra ríkisborgara og talningu Ferðamálastofu á fjölda erlendra ferðamanna, styttist meðaldvöl ferðamanna hér á landi niður í 3,8 nætur á síðasta ári eftir að hafa verið í kringum fjórar og hálfa nótt undanfarin ár.

Segir sambandið hafa rofnað síðasta sumar

Á síðustu árum hefur gistinóttum erlendra ferðamanna hér á landi fjölgað hlutfallslega í takt við tíðari komur þeirra til landsins, en Kristján Sigurjónsson, ritstjóri turista.is, segir að á síðasta ári hafi þetta samband rofnað.

„Því þá fjölgar erlendu ferðamönnunum um 40 prósent en gistinætur útlendinga fara upp um 22 prósent, og þar með styttist Íslandsdvölin töluvert,“ segir Kristján í samtali við fréttastofu. „Þetta samband var mjög sterkt frá árinu 2003 til 2015, en þá var fjöldi gistinátta per erlendan ferðamann ákveðin föst stærð, en svo breytist þetta í fyrra. Mér sýnist að þegar maður skoðar mánuð fyrir mánuð á síðasta ári hafi orðið stór skil í byrjun síðasta sumars og þetta hefur bara haldið áfram í ár.“

Hærra verðlag sennilegasta skýringin

Kristján bendir á að inni í tölurnar vanti gistingar í óskráðum gistirýmum, svo sem Airbnb eða í heimahúsum hjá vinum og kunningjum. Meðaldvöl ferðamanna sé því mögulega aðeins lengri, en í samanburðinum sé stuðst við sambærileg gögn milli ára, sem gefi vissulega ákveðna mynd af þróuninni.  

„Sennilega er verðlagið augljósasta skýringin, það er að segja styrking íslensku krónunnar hefur haft þau áhrif að verðlag á Íslandi er nokkru hærra núna en það var í fyrra, og ég tala nú ekki um í hitteðfyrra, þannig að þar er stóri munurinn,“ segir Kristján. „Svo er kannski önnur skýring sú að fjöldi þessara farþega sem stoppar stutt á Íslandi, til dæmis kaupir svokallaða stop-over þjónustu hjá Icelandair eða WOW-air, kemur kannski inn í landið að morgni og fer um kvöld eða stoppar kannski í eina eða tvær nætur, að hlutfall þessara farþega í ferðamannaflórunni sé að verða miklu hærra með auknum umsvifum Icelandair og sérstaklega WOW-air vestan hafs.“

Ferðamannaflóran að breytast líka

Kristján segir engu að síður að teikn séu á lofti um að eftirspurn eftir styttri og ódýrari ferðum til Íslands hjá erlendum ferðaskrifstofum sé að aukast á kostnað lengri og dýrari ferða.

„Þegar maður talar svo við erlendu flugfélögin sem eru að bjóða upp á flug til Íslands jafnvel allt árið um kring, þá segja menn að eftirspurnin sé alls ekki að dala og þá sérstaklega frá Asíu,“ segir Kristján í samtali við fréttastofu. „Ég get nefnt British Airways sem dæmi, sem flýgur daglega frá Heathrow, þeir segja að stór hluti af sínum farþegum sem fljúgi til Íslands komi frá Kína sérstaklega og þetta heyrir maður líka Lufthansa. Þannig að það virðist vera að flóra ferðamanna sé aðeins að breytast, við séum að fá fleiri Asíubúa á kostnað Evrópubúanna, en á sama tíma séu kannski Íslandsferðirnar að styttast vegna kostnaðarins.“     

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV