Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ferðamenn hafa stóraukið humarát á Íslandi

10.05.2017 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Humarvertíðin er að ná hámarki á Höfn í Hornafirði. Humarhalar voru áður nær allir seldir til útlanda en nú er meirihlutinn snæddur hér heima. Markaður fyrir þennan herramannsmat hefur gjörbreyst með fjölgun ferðamanna.

Vertíð fram yfir sjómannadag

Þegar okkur ber að garði er Skinney nýkomin úr þriggja sólarhringa veiðiferð og hefur landað 6,8 tonnum af heilum humri til vinnslu hjá Skinney-Þinganesi. Það er því nóg að gera í vinnslusalnum. „Við byrjuðum vertíðina í kringum 20. mars. Hún fór rólega af stað en hefur verið að aukast veiðin og er orðin bara mjög góð veiði núna. Hávertíðin er svona fram yfir sjómannadag,“ Segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Veiða- og vinnslu hjá Skinney-Þinganesi.

Írar og Skotar helstu keppinautar á mörkuðum

Humarinn er bæði seldur heill, nær eingöngu á Spánarmarkað, og einnig humarhalarnir sér. Aukin sala á hölum innanlands hefur dregið úr áhrifum af styrkingu krónunnar og þá hækkuðu verð í fyrra. „Það varð vöntun á mörkuðum. Írar og Skotar komu með minni humar inn á markaðinn. Eins hérna heima, það hefur orðið mikil aukning í sölu á hölum hér heima sem hefur gert okkur gott. Það er þessi aukning á ferðamönnum númer eitt. Veitingahúsin eru farin að taka þetta inn á matseðilinn hjá sér hringinn í kringum landið. Þannig að það er stóra breytan í því,“ segir Ásgeir.

Barátta um vinnuaflið á Höfn

Um miðjan mánuðinn fjölgar mjög í vinnslusalnum þegar skólakrakkar komast í frí. „Fyrir 3-4 árum síðan sóttu um 100 krakkar um vinnu hjá okkur og við vorum að taka kannski 70-80 krakka í vinnu. Í dag eru að sækja um á milli 40 og 50 og við tökum þau öll i vinnu í dag. Við erum í mikilli samkeppni við ferðaþjónustuna sem hefur vaxið mikið á staðnum. Þannig að það er barátta um vinnuaflið.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV