Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðamaður eigandi bakpokans í Þingvallavatni

11.08.2019 - 10:18
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Erlendur ferðamaður á bakpokann sem fannst við Þingvallavatn, nærri Villingavatni í gær. Mannlaus bátur og bakpoki fundust á floti í vatninu í gær. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að við skoðun á bakpokanum hafi komið í ljós að eigandi hans væri erlendur ferðamaður. Björgunarsveitarmenn hófu leit á ný við og á vatninu um klukkan níu í dag, segir Davíð Már Bjarnason​, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að ferðamaðurinn hafi gist á tjaldsvæðinu á Þingvöllum nóttina áður. Lögreglan njóti nú aðstoðar utanríkisráðuneytisins við að reyna að afla upplýsinga frá aðstandendum mannsins um ferðaáætlanir og fyrirætlanir hans. 

Í samtali við fréttastofu segir Davíð að búist sé við að tugir björgunarsveitarmanna verði að störfum við vatnið í dag. Þá verði leitað meðfram vatninu öllu. Þá verði unnið við vatnið eins lengi og þörf krefji. 

Davíð segir að ákvörðun um framhaldið verði tekin í lok dags. Lögreglan taki ákvarðanir um næstu skref. 

Í tilkynningu frá lögreglu segir að björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar hafi leitað í gær fram til klukkan tíu. Davíð segir að leitin í gær hafi gengið vel, bátarnir hafi farið víða og leitað í öllum eyjum. Hins vegar hafi verið mikill og stöðugur öldugangur í vatninu sem hafi gert björgunarsveitarmönnum erfiðara um vik að athafna sig á vatninu. 

Mynd með færslu
Bátinn, sem fannst á floti á vatninu, má sjá á myndinni. Mynd: Landsbjörg - Aðsend mynd

Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir í samtali við Mbl.is að lögregla hafi rætt við landverði sem áttu í samskiptum við manninn á tjaldsvæðinu í Vatnskoti. Landverðina rámaði í manninn en sáu ekki ummerki um að hann hefði bát eða slíkt með sér, segir hann. „Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um sem lög­regl­an hef­ur virðist hann hafa verið einn á ferð og við höf­um ekki aðrar upp­lýs­ing­ar,“ segir Einar.

Fréttin hefur verið uppfærð.