Ferðalangar kalnir á fingrum

08.01.2020 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Allt ferðafólkið sem lenti í hrakningum í vélsleðaferð á Langjökli í gær er komið í hús. Fólkið fer nú ýmist á Selfoss eða til Reykjavíkur. Fólkið var kalt og hrakið þegar það kom í hús við Gullfoss og einhverjir kalnir á fingrum. Um 40 manns voru í hópnum.

Ein kona í hópnum, sem var með undirliggjandi heilsufarsvandamál var flutt beint á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Fréttastofa hefur ekki nánari fregnir af líðan hennar.

Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, var í Gullfosskaffi í morgun, þar sem tekið var á móti hópnum. Hún segir að fólkið hafi verið mis vel á sig komið eftir hrakningana og eitthvað var um að fólk væri kalið á fingrum. Fréttastofa hefur eftir foreldrum 11 ára barns að það sé ekki enn farið að geta stígið í fæturna eftir kuldann. 

Fólkið beið fyrst í nokkra klukkutíma uppi á jöklinum. Svo var komið með rútu til móts við þau og þar gátu þau beðið eftir björgunarsveitum. Ekki var hægt að hita rútuna. 

Alma segir viðbragðsaðila hafa búið sig undir það versta, enda var hópurinn á jöklinum stór, um 40 manns. Viðbragðsaðilar telji að björgunaraðgerðir hafi gengið vonum framar og að útlitið hafi verið verra en það svo reyndist. 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi