Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðabók sem er heillandi og hræðileg í senn

Mynd: Landsbókasafn / Landsbókasafn

Ferðabók sem er heillandi og hræðileg í senn

13.11.2018 - 13:30

Höfundar

Hvað getur ferðabók, sem var pöntuð af danska ríkinu um miðja 18. öld, sagt okkur um þá tíma sem við lifum nú? Andri Snær Magnason rithöfundur segir að Ferðabók Eggerts og Bjarna lýsi landi í upplausn en í bókinni megi finna vonarglætur á tímum loftslagsbreytinga.

Árið 1752 fengu Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson styrk frá danska ríkinu til að ferðast um Ísland í fimm ár, rannsaka náttúru landsins, skrásetja aðstæður íbúa og koma með tillögur að úrbótum. Bókin kom fyrst út á dönsku árið 1772 en var ekki þýdd á íslensku fyrr en árið 1943.

Fjallað var um bókina í Lestinni á Rás 1, þar sem fólk úr ýmsum áttum og geirum hefur tínt til bækur sem að þeirra mati eiga meira erindi við samtímann en aðrar bækur.

Andri Snær hefur gluggað í Ferðabók Eggerts og Bjarna reglulega í gegnum árin. „Hún er einstaklega heillandi,“ segir hann. „Hún er full af upptalningum og landsháttum og misskemmtilegum fróðleik, en það eru perlur inni á milli. Heildarsamhengið er ólýsanlega heillandi og hræðilegt í senn. Þetta land sem er verið að lýsa kemur manni fyrir sjónir eins og leifar af einhvers konar Íslandi.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andri Snær Magnason rithöfundur.

Landið sem kemur fyrir sjónir Andra Snæs í bókinni virðist vera í fullkominni upplausn. Það var illa leikið af hinum ýmsu plágum sem herjað höfðu á landann og segir Andri Snær að þeir Eggert og Bjarni hafi verið á skjön við ríkjandi hugarfar Íslendinga þess tíma. „Þarna er þjóðtrú og galdrar sem vaða uppi og hugmyndir um visku forfeðra og formæðra. Börn eru ekki höfð á brjósti, nema kannski einn dag og þá er byrjað að tyggja ofan í þau fisk, þeim gefin rjómi og kúamjólk. Barnadauðinn er þarna svo ólýsanlega mikill.“

Eggert og Bjarni voru gagnrýnir á helstu atvinnuvegi Íslendinga – fiskveiðar og sauðfjárrækt. Fiskveiðunum fylgdi útflutningur og erlend verslun, en Íslendingar hafi í skiptum fengið tóbak, brennivín og pestir. „Annars vegar spillti sauðfjárræktin landinu sjálfu og svo drap sjómennskan annan hvern vinnufæran mann,“ segir Andri Snær. Eggert og Bjarni töldu að Íslendingar hefðu í raun vanrækt búskapinn. „Í stað þess að eiga margar kýr og eiga góðan vetrarforða og lifa stabílu lífi, þá áttu menn 80 hesta til að flytja menn á vertíð og smala en kannski bara fjórar kýr. Hestarnir nöguðu allt upp og sauðkindin líka og svo drukknuðu allir á sjónum. Það er eins og þeir álíti að Ísland hafi lent í gríðarskekkju.“

Mynd með færslu
Íslandskort úr Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Ferðabókin er einnig spennuþrungin segir Andri Snær. „Á meðan þeir eru að ferðast þarna vofa yfir Skaftáreldarnir og móðuharðindin og allar þær hörmungar. Ísland ætti að vera rétt að taka á loft upp úr þessum hörmungum en vitandi að þetta lúbarða samfélag, af náttúru- og mannavöldum, er rétt í þann veginn að fá yfir sig hrikalegasta skell sem þjóðin hefur fengið.“

Andri Snær segir að ferðabók Eggerts og Bjarna hafi eilífa tilhöfðun. „Hún fjallar um land sem tókst að snúa sínum vankostum í kosti og þegar við horfum á loftslagsbreytingar á heimsvísu þar sem mörg svæði eru núna eins og Eggert og Bjarni lýsa Íslandi þá má kannski sjá einhverja vonarglætur.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Manneskjan sem hið skáldlega dýr

Bókmenntir

Rithöfundur sem opnar augu okkar

Bókmenntir

Saga sem kollvarpar sjálfumgleði lesenda

Bókmenntir

Eyðingarmáttur stærðfræðinnar