Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fellst á skýringar útlendingastofnunar

05.11.2019 - 19:33
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur óskað eftir nánari upplýsingum um mál kasóléttrar albanskrar konu sem vísað var úr landi í nótt ásamt eiginmanni og tveggja ára barni. Þá óskaði hún eftir upplýsingum um það verklag sem er í gildi þegar mál sem þessi eru uppi. Hún fellst á skýringar útlendingastofnunar sem segir að settum reglum hafi verið framfylgt.

Áslaug Arna segir einstök mál ekki koma á hennar borð. Hún fái fregnir af málum sem þessum í fjölmiðlum, líkt og aðrir, þó hún beri ábyrgð á málaflokknum. Útlendingalög heimili að brottflutningi vegna heilsufarsástæðna sé frestað og til þess hafi verið gripið þegar vísa eigi þunguðum konum úr landi.

„Það verklag sem gildir er það að óskað er eftir upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum og ef þau kveða á um það að það sé hætta á ferðum fyrir viðkomandi að fara í þennan brottlfutning að þá er honum frestað og það hefur margoft verið gert, “ segir Áslaug Arna. 

Hún segir að skýra þurfi tilmæli heilbrigðisyfirvalda betur, líkt og Landlæknir hafi bent á. Útlendingastofnun ætli að fara yfir núgildandi verklag með Landlækni.

Þá segist hún ætla að verða við beiðni biskups um fund vegna brottvísunarinnar.  „Við viljum auðvitað öll fara varlega þegar kemur að þunguðum mæðrum, börnum þeirra, hvort sem það eru ófædd eða fædd. Það er sjálfsagt að verða við þeim fundi að ræða það.“

Áslaug leitaði upplýsinga frá Útlendingastofnun í dag. Samkvæmt þeim virðist sem almennum reglum hafi verið framfylgt. Stjórnarandstaðan hefur boðað áframhaldandi umræður um þessi mál í óundirbúnum fyrirspurnum í upphafi þingfundar á morgun.