Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fella niður komugjöld aldraðra og öryrkja

19.12.2018 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Öryrkjar og aldraðir verða ekki rukkaðir um komugjöld á heilsugæslustöðvar og hjá heimilislæknum frá og með áramótum. Þau þurfa heldur ekki að borga fyrir læknisvitjanir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu. Þar segir að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi ákveðið þessa breytingu. Aldraðir og öryrkjar hafa greitt 600 krónur fyrir komu á heilsugæslustöð á dagvinnutíma og 1.500 krónur utan dagvinnu, læknisvitjanir hafa kostað þá 1.700 eða 2.200 krónur, eftir því á hvaða síma sólarhrings þeirra er vitjað. Alls hafa öryrkjar og aldraðir komið rúmlega 160 þúsund sinnum á í heilsugæsluna á tólf mánaða tímabili frá miðju síðasta ári til miðs þessa árs. 

Í fréttatilkynningu velferðarráðuneytisins er haft eftir heilbrigðisráðherra að þessi niðurfelling komugjalda sé „mikilvæg aðgerð og liður í stefnu stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og auka á móti framlög hins opinbera“. Þetta sé líka í samræmi við þá áherslu að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. 

Heildarútgjöld sjúklinga hafa lækkað um einn og hálfan milljarð króna á ársgrundvelli frá því nýtt greiðsluþátttökukerfi var tekið upp í fyrra, samkvæmt fréttatilkynningunni. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV