Féll á þorrablóti Íslendinga í London

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

Féll á þorrablóti Íslendinga í London

18.11.2017 - 12:19
„Ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér. En maður hefur oft sagt, þetta helvítis þorrablót maður. Það var bara ekkert sem stoppaði mig. Litli karlinn á öxlinni stjórnaði öllu. Strax eftir þetta er ég kominn í harða neyslu," segir Ólafur Gottskálksson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu. Eftir sex ár edrú féll Ólafur á þorrablóti í London og við tók langt og erfitt bataferli.

Í fimmta þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus er fjallað um það þegar íþróttamaðurinn dettur af vagninum; missir tökin á sjálfum sér, sportinu og veruleikanum - þótt innan vallar virðist allt í lukkunnar velstandi. Hvað veldur því að okkar lánsamasta fólk, okkar bestu menn, leiðast inn á brautir glæpa, fíkniefna og annars ófagnaðar? Gestur þáttarins er Ólafur Gottskálksson, sem var um tíma einn af okkar bestu knattspyrnumönnum og spilaði við góðan orðstír í atvinnumennsku erlendis. En hann var líka háður kókaíni og hefur setið inni á Litla-Hrauni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Gottskálksson á heimili sínu í Njarðvík í sumar.

Yfirburðamaður í fótbolta og körfubolta

Ólafur var yfirburðamaður bæði í fótbolta og körfubolta. Aðeins sextán ára gamall var farinn að spila í markinu hjá Keflavíkurliðinu og á sama tíma var hann lykilmaður í körfuboltaliðinu. Hann lagði körfuboltaskóna ekki alveg á hilluna fyrr en árið 1991, en lagði þó mesta áherslu á fótboltann. Árið 1996 fer hann í atvinnumennsku í fyrsta skiptið þegar hann semur við skoska liðið Hibernian frá Edinborg. Í Edinborg á Ólafur bestu árin á atvinnumannaferli sínum. Hann spilar tvö tímabil í efstu deild, og er lykilmaður í frægu liði Hibernian sem sigraði 1. deildina með yfirburðum. Við lok samningstímans semur Ólafur við 2. deildarlið Brentford á Englandi. Þar sækja gamlir draugar á Óla. Djöflar sem hann hafði áður glímt við og haft betur gegn. Nú hafði gamli púkinn úr Keflavík kíkt í heimsókn og við hann var ekki ráðið. Sitt er hvað, gæfa eða gjörvileiki.

Mynd með færslu
 Mynd: Víkurfréttir
Ólafur var yfirburðarleikmaður í körfuknattleiksliði Keflavíkur, ungur að árum.

Féll á þorrablóti í London

„Ég á þrjú góð ár í Skotlandi áður en ég fer niður til Englands. Það er ekki fyrr en ég fer á þorrablót Íslendinga í London sem að hlutirnir fara að ganga illa hjá mér aftur,” segir Ólafur. Á þorrablótinu kemst Ólafur í kynni við mann sem selur honum eiturlyf.

„Þarna er ég búinn að vera edrú í að verða sex ár. Það er eins og við manninn mælt, þegar þú fellur sem neytandi þá byrjarðu ekkert rólega - þú ferð á fulla ferð strax. Ég var kominn í sterkara efni, kókaín, sem ég kolféll fyrir. Strax eftir þetta er ég kominn í harða neyslu. Ekki dagneyslu en einhverja daga í hverri viku.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hrammar Ólafs eru ógnarstórir, enda var hann á sínum tíma frábær markvörður.

Keyrði 1000 km tvisvar í viku til að ná í efnin

Ólafur segir að í Bretlandi hafi hann verið í friði með sína neyslu. Eftir að samningnum lýkur hjá Brentford fer Ólafur heim og spilar stutt með Grindavík og Keflavík, þótt hann sé í engu standi til að spila fótbolta. Í bullandi neyslu, ákveður Ólafur að gefa atvinnumennskunni einn séns í viðbót og semur við enska liðið Torquay. Þegar hann lítur til baka spyr hann sig þeirrar spurningar hvort hann hafi farið út til að spila, eða hvort hann hafi farið út til að komast í efnin sín. Í janúar 2005 er hann boðaður í lyfjapróf - sem hann segir ekki hafa verið neina tilviljun.

„Ég var orðinn svo slæmur þarna. Dílerinn minn bjó í London. Það voru keyrðir 500 kílómetrar aðra leiðina til að ná sér í efnið sitt, einu sinni til tvisar í viku. 1000 kílómetrar tvisvar í viku til að ná sér í efnin.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur og undirritaður í rigningunni í Njarðvík.

Fór til Amsterdam til „að rústa sér"

Ólafur var dæmdur í alþjóðlegt keppnisbann samdægurs fyrir að skrópa í lyfjaprófinu. Hann segir það hafa verið agalega skömm – og því hafi hann brugðið á það ráð að láta sig hverfa.

„Ég fór til Hollands, tók bara næstu vél til Amsterdam. Var þar í viku til 10 daga, í algleymingi. Ég var auglýstur týndur í blöðunum heima. Ég gerði mér enga grein fyrir því sem ég var að gera, maður hugsar bara um rassgatið á sjálfum sér," segir Ólafur. Fór hann til Amsterdam til að rústa sér?  „Já algjörlega.”

Dómurinn og tíminn á Litla-Hrauni 

Ólafur náði sér á strik, kom til Íslands og var edrú um stund. Hann féll þó fljótlega aftur og í þetta skiptið átti það eftir að hafa alvarlegri afleiðingar en áður. Árið 2009 er hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir húsbrot, líkamsárás og rán og fer á Litla-Hraun. Hann segir það hafa verið hræðilegt áfall að hafa verið dæmdur í fangelsi.

„Hvernig get ég lent í þessu, spurði ég mig. Svo kemur kallið að fara að mæta í fangelsið. Þetta var allt hálfótrúlegt. Faðir minn var löggæslumaður alla tíð og bindindismaður líka. Ég kem frá góðri fjölskyldu. Mín hegðun er svo þvert ofan í allt sem ég ætti að sýna og var alinn upp við. Þarna eru bara fíkniefnin búin að taka stjórnina,” segir Ólafur.

Ólafur segir að sér hafi verið tekið vel á Litla-Hrauni. Strákarnir hafi verið lukkulegir að fá hann og settu pressu á hann að spila fótbolta með þeim, sem hann gerði. Á Hrauninu var Davíð Garðarson, félagi Ólafs úr boltanum, og það gerði dvölina bærilegri. „En samt mér leið alveg hræðilega illa allan tímann inni á Litla-Hrauni.”

Reyndi að stinga lögregluna af

Óli komst á beinu brautina þegar hann losnaði af Hrauninu. Um stund. Náði einu og hálfu ári sem hann er edrú. Einu og hálfu ári í góða lífinu. Allt gengur vel. Svo settist púkinn á öxlina á Ólafi, einu sinni enn.

„Og segir mér að prófa einu sinni enn. Núna gengur allt svo vel Óli, þú hefur stjórn á þessu. Ég geri þetta öðruvísi í þetta skiptið. Ég er ekki í sambandi við annað fólk, ég er bara einn í minni neyslu. Og ekki í kókaíni, það er ekkert almennilegt kókaín á Íslandi. Þetta var kannabis og amfetamín."

Og á síðasta ári, kom síðasti skellurinn. Síðasta höggið. Ólafur sest upp í bílinn að morgni dags með syni sínum og keyrir í átt að leikskólanum. En í vari liggur lögreglan, enda er Ólafur ekki edrú og það vita þeir. Bílinn er eltur uppi og það kviknar á bláu ljósunum. 

„Þá kom þessi bráðsnjalla hugmynd að stoppa ekki fyrir þeim og halda heim. Ég vildi koma drengnum til mömmu sinnar. Þetta varð háskaleg eftirför frá leikskólanum og hingað. Þeir keyra fjórum sinnum inn í bílinn, vitandi að fimm ára sonur minn var inni í bílnum. Ég mun aldrei geta fattað þá ákvöðrun, en þeir segja annað í blöðunum. Fyrir mér var þetta spil algjörlega búið þarna og mér féllust bara hendur yfir því sem ég gerði. Ég á sökina á þessu öllu og verð að kyngja því að ég tók kolranga ákvörðun.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgrímur Þráinsson var einn af þeim sem komu Ólafi til bjargar.

Þorgrímur Þráins og Guðni Bergs komu til bjargar 

Þegar þú vilt grafa þig ofan í jörðina, þegar öll ljós eru slokknuð, er það manninum kannski í blóð borið að reyna að reisa sig við. Stjörnur skína jú skærast í svartasta skammdeginu. Og þá er gott, að eiga góða að.

„Að vera í þessari stöðu, þér finnst þú vera svo lítill og ómerkilegt mannkerti og þú vilt helst ekki vera til, þá er tvennt í stöðunni. Að halda áfram að deyfa tilfinningarnar eða gera eitthvað í því. Ég hringdi þá í hann Togga, Þorgrím Þráins, og Guðna Bergs. Þeir hjálpuðu mér að komast inn. Gummi Hreiðars hjálpaði mikið líka, og ég var kominn inn í meðferð eftir tvo daga."

Í þættinum ræðir Ólafur einnig um þá samferðamenn sína sem voru ekki jafn heppnir og hann og tóku sitt eigið líf. Þá er einnig rætt um hvort íþróttamenn séu móttækilegri fyrir fíkn en aðrir. Hann vill koma sérstökum þökkum á framfæri til vina sinna, fjölskyldu sinnar og sér í lagi eiginkonu sinnar, Snjólaugar, sem hefur staðið eins klettur á bak við hann. Þá stendur hann í mikilli þakkarskuld við SÁÁ, sem hann segir að hafi oftar en einu sinni bjargað lífi hans.

Markmannshanskarnir hans Alberts Camus eru á dagskrá á laugardögum á Rás 1 í vetur. Í þáttunum er fjallað um aðrar og óþekktari hliðar íþróttanna. Tæknimaður er Hrafnkell Sigurðsson. Lesari í þættinum er Vera Illugadóttir.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Um fagurfræði kappleikjalýsinga

Menningarefni

„Ég varð að leyfa efnilega Pavel að deyja"

Trúarbrögð

Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum

Trúarbrögð

„Hvað ef íþróttamaður héldi að hann væri Guð?“