Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Félagsmenn Sameykis fá líka viðbótarhækkun Eflingar

10.03.2020 - 15:46
Innlent · Efling · kjaramál · Verkfall
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Félagsmenn Sameykis fá sömu viðbótarhækkanir og þær sem Efling samdi um í nótt. Þetta segir formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar. Viðbótarhækkunin nemur 15 þúsund krónum í lægstu launaflokkunum.

Viðbótarhækkunin tekur til starfsfólks leikskóla, og þeirra sem sinna ræstingu og umönnun aldraðra en ekki til þeirra sem eru með viðbótargreiðslur ofan á grunnlaun eins og sorphirðumenn. „Þetta er sérstök leiðrétting með kerfisbundnu endurmati starfsmats sem að við erum að fara í. Þannig að það er verið að flýta þessum greiðslum,“ segir Harpa Ólafsdóttir er formaður samninganefndar borgarinnar.

Með samningi við Sameyki, sem gengið var frá í gær, hefur borgin nú samið við um sex þúsund starfsmen, sem eru sextíu og fimm prósent starfsfólks borgarinnar. „Þetta nær til Sameykis og Eflingar því þar eru lægstu launin,“ segir Harpa.

En hvað varð þá til þess að þið leystuð deiluna í nótt? „Við skulum segja að það hafi verið frekar þessi útfærsla að flýta þessum leiðréttingum sem ég held að hafi ráðið úrslitum,“ segir hún.