Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Félagsdómur telur örverkföll Eflingar ólögleg

15.03.2019 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu á sjöunda tímanum í kvöld að örverkföll Eflingar séu ólögleg og munu þau því ekki koma til framkvæmda. Þetta eru fjögur af þeim sjö verkföllum sem kosið var um í kosningu hjá verkalýðsfélaginu og segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, að félagsdómur hafni túlkun félagsins á vinnulöggjöfinni.

„Ég hef sagt að það hafi verið sérstakt keppikefli Eflingar að reyna á þolmörk vinnulöggjöfinnar og að SA muni kæra allar tilraunir til fara gegn henni. Það er ánægjulegt að úrskurðurinn liggi fyrir  - að þetta sé ólöglegt.“ Ekki náðist strax í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, vegna dómsins.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra félagsins, segir það miður að þeirra fólk hafi ekki fengið að nýta sér til fulls verkfallsréttinn eins og Efling líti á hann. Hann telur það líka miður fyrir alla að afleiðing dómsins í kvöld sé að með honum er komið í veg fyrir að hægt er að beita hófsömum og stigmagnandi aðgerðum. Það setji Eflingu í þá stöðu að þurfa að beita aðgerðum þar sem til „fullra áhrifa“ komi strax. Hann segir Eflingu tilbúna að láta áfram reyna á þessi atriði í vinnulöggjöfinni - heimildina að láta aðgerðir taka til hluta starfa.

Ekkert verðurþví af verkfalli Eflingar á mánudag en sólarhrings verkföll VR og Eflingar á föstudag standa enn. „Þetta hefur engin áhrif á okkar verkfallsaðgerðir sem lúta að hefðbundnum aðgerðum sem eru samstilltar við VR.“ Þau haldi áfram ótrauð og hefjast á föstudag með sólarhringsverkfalli á hótelum og hópbifreiðum.

Aðspuður hver næstu skref verði segir Viðar að það verði lagt í dóm félagsmanna og samninganefndar.„ Þessar aðgerðar voru þróaðar í  nánu samstarfi við félagsmenn á vinnustöðum og við munum skoða það hvort að við getum gert aðra athugun á útfærslu á þessu.“ Í yfirlýsingu frá Eflingu er lýst yfir vonbrigðum með niðurstöðu Félagsdóms.  „„Við erum hvergi af baki dottin og höldum ótrauð áfram með hefðbundin verkföll sem boðuð hafa verið og hefjast næstkomandi föstudag,“ ef haft eftir Sólveigu Önnu í yfirlýsinguni.

Aðgerðirnar voru samþykktar í atkvæðagreiðslu félagsmanna Eflingar um síðustu helgi. Þetta voru hefðbundin viðtöl en einnig truflun á vinnu, meðal annars átti að hætta þrífa klósett á hótelum síðustu vikuna í mars og út apríl og hópferðarbílstjórar ætluðu ekki að rukka í strætó í fimm vikur. 

Félagsdómur segir í dómi sínum  um truflun á störfum á hótelum að allur gangur sé á því hvort starfslýsingar séu til staðar og hvort þær séu munnlegar eða skriflegar. Þegar svo ber undir sé alls óvíst til hvaða vinnu slíkt verkfall nái og verkfallið því dæmt ólöglegt. Sama eigi við um vinnustöðvanir hjá félagsmönnum Eflingar hjá fyrirtækjum í hópbifreiðarakstri. 

Þá segir félagsdómur í dómi sínum að það sé það samofin og órjúfanlegur þáttur í starfi bílstjóra að hafa eftirlit með greiðslu gjalds að hann verði ekki skilinn frá öðrum þáttum starfsins sem þeir sinni. . Þá komst félagsdómur einnig að þeirri niðurstöðu að sú verkfallsboðun að láta bílstjóra dreifa kynningarefni Eflingar,  stöðva bíla sína á stoppistöð í fimm mínútur á dag klukkan fjögur og þrífa þær ekki að utanverðu, væri sömuleiðis ólögleg. 

Fréttin hefur verið uppfærð

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV