Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Félagið á hnjánum að biðla til kaupenda

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Kostnaður við íbúðir sem Félag eldri borgara reisti við Árskóga í Breiðholti fór 401 milljón fram úr áætlun. Í fyrradag var kaupendum gert ljóst að þeir yrðu annað hvort að greiða meira fyrir íbúðirnar eða hætta við kaupin. Einhverjir kaupendur íhuga málsókn á hendur félaginu. Maður sem aðstoðað hefur stjórn félagsins við að greiða úr vandanum segir ljóst að það myndi keyra það í þrot. 

Segjast hafa nefnd þriðja kostinn á fundum

Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri félagsins, hyggst funda með hverjum kaupanda. Á þeim átján fundum sem haldnir hafa verið var kaupendum gerð grein fyrir stöðunni og í skjali sem þeim var fengið kemur fram að félagið telji um tvo valmöguleika að ræða, að samþykkja hækkun kaupverðs eða falla frá kaupunum. Ekkert er minnst á þriðja valkostinn, dómstólaleiðina. Maður sem aðstoðað hefur Gísla á fundunum segir að kaupendum hafi þó einnig verið gerð grein fyrir því að dómstólaleiðin væri fær og réttur félagsins enginn. „Við ræddum það við fólkið á staðnum bara, að það væri þriðji kosturinn sem fólkið hefði og félagið viðurkennir það bara alveg klárt að það hefur enga lagalega stöðu í þessu,“ segir Sverrir Hermann Pálmarsson, sérfræðingur í byggingakostnaði. Hækkunin á kaupverði hverrar íbúðar nemur um tíu prósentum, sem gera um fjórar til sjö milljónir á íbúð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sverrir Pálmarsson
Sverrir Pálmarsson, ráðgjafi FEB.

Mannleg mistök

Stjórn félagsins fól Gísla að fara yfir verkefnið, alla reikninga og samskipti við bankann. Hann segir að á miðvikudag hafi legið fyrir að það vantaði 401 milljón til að endar næðu saman. Þetta hafi fyrst og fremst verið mannleg mistök, vextir hafi verið vanáætlaðir. „Ein skekkjan er að semja við verktaka um verðtryggt verkefni og hafa enga fyrirvara í kaupsamningum,“ útskýrir Sverrir. Hann hafi aldrei séð slík mistök áður. Þá hafi orðið níu mánaða seinkun á framkvæmdum vegna lagna sem þurfti að færa, „en vísitalan í samningnum við verktakann byrjar samt sem áður að telja“.

Hyggst auglýsa eftir þátttakendum í hópmálsókn

Lögmaður eins kaupandans sagði í fréttum í gær að kaupendur gætu krafist efnda og í viðtali við morgunblaðið í dag sagði lögmaður og tengdasonur eins kaupandans að hann hygðist sennilega auglýsa eftir þátttakendum í hópmálsókn á hendur félaginu. „Félagið gerir sér alveg grein fyrir því að það getur ekki bjargað sér út úr því og það yrði borðleggjandi tapað mál,“ segir Sverrir. 

 Hvað þýðir það? Þetta er ekki stórt félag.

„Það þýðir bara að ef félagið lendir með 401 milljón í fanginu er það bara gjaldþrota. Það er í sjálfu sér þannig að félagið er bara að koma á hnjánum og biðja til fólks.“

Leita leiða

Þrátt fyrir þennan forsendubrest segir Sverrir íbúðirnar enn undir markaðsverði. Félagið bindur vonir við að hluti kaupenda samþykki hækkunina. Þá hyggst það selja íbúðir þeirra sem hætta við kaupin á markaðsverði, en fyrir voru kvaðir um að gera það ekki. Þá hyggst félagið leita leiða til að lækka verð íbúðanna, reyna að fá slaka hjá bankanum eða bætur frá Reykjavíkurborg sem afhenti lóðina seinna en til stóð. Sverrir segir að þrátt fyrir að slíkar viðræður bæru árangur yrði kaupverðið alltaf töluvert yfir því upphaflega.